„ALVÖRU FJÁRFESTAR“ SEGIR BANKASTJÓRI ARION UM NÝJA EIGENDUR

Hér eru fagmenn á ferð - Nú þurfum við ekki lengur að láta ótínda amatöra og braskara féfletta okkur!

„Þetta eru alvöru fjárfestar,“ segir núverandi bankastjóri hins nýselda Arionbanka í viðtali við RÚV um kaupendurna sem enginn veit nákvæmlega hverjir eru, en komið hefur fram að meðal þessara „alvöru fjárfesta“ sé hinn illræmdi vogunarsjóður Och-Ziff Capital Management Group sem dæmdur hefur verið fyrir svindl og svínarí – eins og vikið er að í sömu frétt á ruv.is.

Það er mjög skemmtilegt að „alvöru fjárfestar“ skuli loks vera komnir á kreik hérna á skerinu rétt um það leyti sem okkar helstu alvöru fjármálaséní eru að ljúka heilsubótardvöl á Kvíabryggju og öðrum mjúkum refsistofnunum, og ánægjulegt fyrir okkur viðskiptavini Arionbanka að peningarnir okkar skuli loksins hafna hjá „alvöru mönnum“ en ekki einhverjum amatörum og smábröskurum.

Það er ábyggilega líka mjög notalegt fyrir nýja eigendur Arionbanka að mjúk tunga lykilstarfsmanns strjúki þeim blíðlega um afturendann og spillir vonandi ekki framtíðarmöguleikum viðkomandi á áframhaldandi starfi hjá fyrirtækinu.

Þér gæti einnig líkað við
Ummæli
Hleð...