Hvernig hinar Villtu Vestmannaeyjar komu í staðinn fyrir Villta vestrið

Byssubófarnir Butch og Sundance og íslenskir afkomendur þeirra

Það er skrýtið og þó ekki, að sögupersónur í bókum eða kvikmyndum geta eignast afkomendur, rétt eins og lifandi fólk, enda þótt getnaður afkomendanna fari fram með nokkuð öðrum hætti en tíðkast hjá lifandi manneskjum. Til dæmis eiga byssubófarnir Butch og Sundance sprellifandi afkomendur á Íslandi.
 

Einu sinni fyrir langalöngu (frá ofanverðri nítjándu öld og fram í byrjun þeirrar tuttugustu) voru á dögum í hinni ungu Ameríku tveir glæpamenn sem hétu Robert Leroy Parker og Harry Alonzo Longabaugh, betur þekktir sem Butch Cassidy og The Sundance Kid. Ásamt með glæpagenginu sem gekk undir nafninu „The Wild Bunch“ sérhæfðu þeir Butch og Sundance sig í að ræna banka og járnbrautarlestir og voru þekktir fyrir að vera ekki alveg jafnbyssuglaðir og ofbeldisfullir og flestir aðrir sem störfuðu á þessu sviði ofbeldis um þetta leyti – þó er talið að minnst fimm manns hafi látið lífið af þeirra völdum.

Parker/Butch Cassidy
Parker/Butch Cassidy 
Longabaugh/Sundance Kid
Longabaugh/Sundance Kid

 

Glæpir borga sig ekki. Að minnsta kosti ekki minniháttar glæpir eins og bankarán og aðrar ógnanir við eignarréttinn svo að vopnuð lögregla var á hælum þeirra félaga og þeir sáu sér þann kost grænstan að flýja land og freista gæfunnar í Suður-Ameríku. (Með í för var unnusta Longabaughs, Etta Place).

Longabaugh og Etta Place.
 
Síðast spurðist til þeirra Butch og Sundance árið 1908 þegar þeir eru taldir hafa látið lífið í skotbardaga við her eða lögreglu í Bolivíu – eða komist undan og tekist að fela slóð sína… Etta Place telja menn hins vegar að hafi komið aftur til Bandaríkjanna og fer mörgum ólíkum sögum af lífi hennar og störfum eftir heimkomuna.
 
Hlé í rúm 60 ár
 
Robert Redford/Sundance og Paul Newman/Butch

 

Næst gerist það að glæponarnir Butch og Sundance eru kallaðir til nýs lífs af handritshöfundinum William Goldman og leikstjóranum George Roy Hill í kvikmynd sem frumsýnd var síðla árs 1969: „Butch Cassidy and the Sundance Kid“ þar sem leikararnir Paul Newman og Robert Redford fóru með titilhlutverkin og Katharine Ross lék Ettu Place. Músíkina samdi Burt Bacharach og myndatöku stjórnaði Conrad L. Hall.

William Goldman
Leikstjórinn George Roy Hill. 
Það er skemmst frá því að segja að þessi mynd sló í gegn hjá almenningi – og lifir enn sem hluti af „klassík“ þessarar ungu listgreinar.
 
Seinnipart vetrar 1969-70 sá ungur drengur frá Íslandi sem aldrei hafði áður heyrt minnst á þessa amerísku byssubófa þessa mynd um þá í Dublin þar sem hann þóttist vera við nám í heimspeki, sálfræði og fornleifafræði en var mest að reyna að komast að því hvað hann ætti að verða ef hann yrði einhvern tímann fullorðinn. Þetta var semsé undirritaður.
 
Ég held ég hafi séð þessa mynd fjórum eða fimm sinnum og kann hana nokkurn veginn utan að. Það er einfalt að afskrifa hana með yfirlæti sem enn eina „buddy-movie“ frá Hollywood um siðblinda karlmenn með Peter Pan-heilkenni. En í mínum huga nær hún miklu dýpra en það og táknar ólgandi lífsgleði, lífsnautn og orku í heimi þar sem aðstæður eru ekki alltaf eins og best væri á kosið. Hún fjallar um bjartsýni æskunnar og lífskraftinn á því æviskeiði þegar ekkert er óyfirstíganlegt. Hún er líka kennslubók í kvikmyndagerð, kvikmyndatöku, klippingu og notkun kvikmyndatónlistar. Hún var mér á margan hátt jafnmikilvæg og kvikmyndaskólinn sem ég var svo heppinn að fá að læra við í Stokkhólmi nokkru síðar.

 

Seinna hlé í rúm 10 ár 

Kannski átti einhvers konar getnaður sér stað um leið og hið stórkostlega upphafsatriði bar fyrir augu íslenska drengsins sem uppnuminn horfði á ræmuna í kvikmyndahúsi við O’Connell stræti einn regnvotan eftirmiðdag í Dublin árið 1970.

Meðgöngutíminn hefur þá verið 13 ár, því að árið 1983 komu svo skilgetnir tvíburasynir þeirra Butch og Sundance fyrir augu íslenskra kvikmyndaunnenda og heita Þór Magnússon og Daníel Ólafsson betur þekktir sem Þór og Danni, í frábærri túlkun leikara sem allir þekkja og heita Eggert Þorleifsson og Karl Ágúst Úlfsson og tókst að gera Butch og Sundance úr Villta vestrinu að trúverðugum farandverkamönnum í verbúð og í frystihúsi í Vestmannaeyjum.

NÝTT LÍF – hinar Villtu Vestmannaeyjar í staðinn fyrir Villta vestrið.
Það er kannski rétt að taka það fram að það var ekki fyrr en löngu eftir að Þór og Danni komu í heiminn að ég áttaði mig á ætt þeirra og uppruna, ég hélt eiginlega að þeir væru eingetnir, en svo er ekki. Allt á sér sínar rætur. Og þeirra rætur má rekja til tveggja amerískra byssubófa sem hétu sem hétu Robert Leroy Parker og Harry Alonzo Longabaugh.

 

 

Þér gæti einnig líkað við
Ummæli
Hleð...