Engin ástæða til að fara á taugum

Tímabilið frá stofnun Alþingis, 930, til 1262 þegar Íslingar gerðust á ný norskir þegnar er kallað „Þjóðveldisöld“ og einkennist af því að þá var engin ríkisstjórn í landinu, ekkert framkvæmdavald – sem sagt stjórnarkreppa í rúm 300 ár. Á þessum tíma réðu svokallaðir „goðar“ lögum og lofum í landinu. Þetta voru fjármagnseigendur og frjálshyggjumenn þess tíma, fjárfestar og velinnmúraðir einstaklingar sa. 40 talsins sem áttu allan auð í landinu, sem sagt heldur fleiri en núna sem leiddi á endanum til alltof mikillar samkeppni og allt samráð fór út um þúfur og allt í bál og brand og því fór sem fór.

Af sögunni má margt læra – ef maður sé í stuði. Til dæmis að engin ástæða fyrir þjóð sem hefur lifað af stjórnarkreppu sem stóð í meira en 300 ár að fara á taugum við stjórnarkreppu sem hefur varað í rúman mánuð. Og meðan ættirnar sem eiga alla peningana standa saman eins og einn maður (eða kannski tveir frændur) er engin hætta á ferðum og allt í sús og dús. Ófriður meðal eignalausra er bara styrkjandi fyrir andann og það er ekki fyrr en fjármagnseigendur verða ósams sem ástæða er til fyrir almúgann að fara að birgja sig upp af dósamat.

Þér gæti einnig líkað við
Ummæli
Hleð...