ENGIR HRÆGAMMAR Í HÚSDÝRAGARÐINUM!!

Andleg árvekni þjóðarinnar virðist vera í hámarki fyrsta apríl - og upplagt væri að sem flestar kosningar fari fram á þeim degi til mótvægis við þá andlegu deyfð og almennu trúgirni sem virðist svífa yfir vötnunum aðra daga ársins

Nokkrir af mínum elskulegu Fb-vinum hafa orðið til þess að benda mér á að síðasta færsla mín um hrægamma í Húsdýragarðinum hljóti að tengjast því að færslan var sett inn að kvöldi 31. mars og ætluð til lestrar 1. apríl, en þann dag var um skeið í tísku að skrökva einhverju að fólki og helst að fá það til að hlaupa í erindisleysu yfir þrjá þröskulda.

Ég þakka þessar góðu og skarplegu ábendingar sem staðfesta það sem mig grunaði, sem sé að fólk sé mun líklegra til að átta sig á því að verið sé að hafa það að ginningarfíflum 1. apríl en aðra daga ársins og kannski væri sniðugt að skipuleggja kosningar þannig að þær geti sem ofast farið fram 1. apríl þegar andleg skerpa þjóðarinnar virðist vera í hámarki.

Umrædd færsla var sett inn í þrennum tilgangi:

Í fyrsta lagi til gamans.

Í öðru lagi til að vekja athygli á hættulegustu kvikindum samtímans.

Í þriðja lagi til að benda hversu hrægammar í drögtum og jakkafötum eru orðnir útbreiddir á Íslandi alveg burtséð frá öllu aprílgabbi.

Þótt Íslingar geti ekki lengur talist til hinna greindari þjóða var það ljóst frá upphafi að umrædd færsla inniheldur tvær staðhæfingar sem eiginlega allir sem eitthvert vit hafa vita að fá ekki staðist.

Í fyrsta lagi er fullyrt að umræddir hrægammar gangi í fatnaði (frá Goldman Sachs) en flestum er ljóst að raunverulegir hrægammar ganga og fljúga naktir.

Í öðru lagi er staðhæft að þeim sem kæmu til að skoða hrægamma í Húsdýragarðinum yrði boðið upp á ókeypis hádegisverð – en það má öllum ljóst vera að það er ekkert til lengur sem heitir „ókeypis hádegisverður“.

Sem betur fer eru litlar líkur á að rekast á hrægamma í Húsdýragarðinum, en þeim mun meiri líkur á að mæta þeim annars staðar. Erfitt er að þekkja hrægamma og siðblindingja frá venjulegu fólki. Myndin af leikaranum Anthony Perkins í hlutverki hins geðvillta hóteleiganda Norman Bates.

Þessi færsla innihélt fleiri ósannindi, til að mynda hafa Íslingar engar gjafir þegið af þeim fyrirtækjum/aðilum sem taldir voru upp sem rausnarlegir gefendur í færslunni, eiginlega þvert á móti. Hins vegar er það staðreynd að hrægammar eru til bæði þeir fleygu sem nærast mest á hræjum og gera gagn í náttúrunni sem lífrænar sorpeyðingarstöðvar og svo þeir ófleygu sem svífa um háloftin í einkaþotum og nærast á því að sjúga peninga úr fólki og fyrirtækjum og hafa komið óorði á hina raunverulega hrægamma.

Þeir fyrrnefndu eru ekki til á Íslandi en hinir síðarnefndu eru jafnútbreiddir hér og arfi var á fjóshaugum í eina tíð.

 

Þér gæti einnig líkað við
Ummæli
Hleð...