„Greiðum götu okkar!“

Samgönguráðuneytið undirbýr nýtt átak til hagsbóta fyrir gangandi vegfarendur

Það eru fleiri mál en veggjöldin sem nú er unnið að í samgönguráðuneytinu samkvæmt hugmyndafræði hins snjalla samgönguráðherra okkar. Til dæmis eru þar í undirbúning lög um svonefnd göngugjöld sem heimila gjaldtöku ekki einungis af vegum fyrir vélknúin ökutæki heldur einnig af gangstéttum, gangstígum og hjólabrautum sem „gangandi“ og „hjólandi“ vegfarendur nýta til að komast leiðar sinnar. Þetta átak er kallað „Greiðum götu okkar!“

Í ráði er að hefja einkavæðingu gangstétta og gangstíga á bæði á höfuðborgarsvæðinu á landsbyggðinni og byrja á gangstéttum við Laugaveg milli Hlemms og Lækjartorgs þar sem sérstakir gönguverðir munu innheimta göngugjald, „pay as you go“, af gangandi vegfarendum og hjólareiðagjald af hjólreiðamönnum og „reiðgjald“ verður einnig innheimt fyrir notkun reiðvega en reið utan vega verður óheimil. Á sama tíma hefst gjaldtaka fyrir að ganga (eða hlaupa) hinn svonefnda „Laugaveg“ eins og gönguleiðin úr Landmannalaugum og Þórsmörk (og öfugt) er kölluð – fyrir að hlaupa eftir göngustígum verður innheimt sérstakt „hlaupaálag“ eins og eðlilegt er því að um meira slit er að ræða á gangvegum við hlaup eða skokk heldur en venjulegar göngur.

Enn um sinn og þar til annað verður ákveðið verður innifalið í gangstéttar- eða gangbrautargjaldinu fyrir gangandi vegfarendur að nota svonefndar gangbrautir, sebrabrautir eða „liggjandi lögregluþjóna“ til að komast yfir akbrautir. Reiknað hefur vegið út að hin nýja löggjöf muni koma í veg fyrir óþarfa ráp og þvæling á fólki í fullkominni erindisleysu, því að héðan í frá mun því fylgja nokkur kostnaður eins og eðlilegt er að fara út að ganga.

Þér gæti einnig líkað við
Ummæli
Hleð...