Grikkir fara kreik með gjafirnar enn eina ferðina

Fólk beðið um að gjalda varhug við gjöfum og gylliboðum

Í okkar góðu Wikipedíu er sagt frá Eneasarkviðu en það „er latneskur kvæðabálkur …eftir rómverska skáldið Virgil (Publius Vergilius Maro) … og segir frá sögunni um Eneas, Trójukappa, sem flúði Tróju við fall hennar og endaði uppi á Ítalíu, þar sem niðjar hans stofnuðu Róm“ með góðum árangri og almennum eins og frægt er.

Í þessu mikla verki er að finna fræga viðvörun sem Trójumenn tóku ekki mark á og því fór sem fór. Grikkir (sem sátu um borgina) komu skyndilega mjúkmálir með heljarstóran tréhest (stærri en Ikeageitin og Coscogíraffinn samanlagt) og vildu gefa Trójumönnum. Þá sagði sá ágæti prestur Laocoön við samborgara sína í Tróju: „Equō nē crēdite, Teucrī! Quidquid id est, timeō Danaōs et dōna ferentīs.“ (Treystið hrossinu varlega, Trójumenn. Hvað svo sem þetta kann að vera þá óttast ég Grikkina – ekki síst þegar þeir koma færandi hendi).

Nú styttist í kosningar og þá er ekki bara gott heldur nauðsynlegt að hafa þetta heilræði í huga og gjalda varhug við þeim sem hafa löngum gert manni margt á móti skapi en vilja allt í einu snúa við blaðinu og troða upp á mann gjöfum, enda fór ekki vel fyrir Trójumönnum sem tóku ekki mark á viðvörunum.

Þér gæti einnig líkað við
Ummæli
Hleð...