„Grrr. %%###“‼!“

Allt í steik í Andabæ og Heimsþorpinu

Suma daga eru fréttirnar þannig að mann langar til að byggja sér kofa einhvers staðar í óbyggðum án rafmagns og internets og laus við fréttir sem eru reyndar mestan part upptalning á glæpum, heimskupörum, slysum, hörmungum og ógæfu sem staðfestir það sem maður vissi fyrir – sem sé að mannskepnan er grimmasta kvikindi sem fæðst hefur á þessari jörð, enda fer minna fyrir fréttum af andlegum afrekum tegundarinnar og kærleiksverkum.

Nú hefur fyrirbærinu Trump tekist að verða manndrápari eins og hann gaf sterklega til kynna að hann dreymdi um að verða. Ekki bjóst ég við því að hann yrði svona snöggur að ná því markmiði sínu – ég reiknaði heldur ekki með því að það væru nógu margir vitleysingar í Bandaríkjunum til að gera hann að forseta – en heimskuna skyldi maður aldrei vanmeta frekar en illskuna. 

Trumparinn gat sem sé ekki beðið lengur eftir því að prófa hvort herinn tæki mark á honum ef hann fyrirskipaði loftárás á eitthvert skotmark langt utan bandarískrar lögsögu. Og eins og við var að búast hlýddi herinn og spanderaði 59 fokdýrum flugskeytum til að drepa 9 manns í Sýrlandi Trump til dýrðar, þar af 4 börn. Þeir sem létu þar lífið voru einstaklingar sem tæplega hafa staðið fyrir eiturvopnaárásinni sem þessi trompaði forseti allra fífla telur sig vera útvalinn til að hefna fyrir. Þetta er væntanlega bara byrjunin á forsetaferli sem trúlega á eftir að leiða til mikillar ógæfu og blóðsúthellinga.

Og nú er enn ein hryllingsfréttin frá Svíþjóð. Þrjár saklausar manneskjur keyrðar í klessu í miðju þeirrar fögru borgar Stokkhólms ekki langt þar frá sem Anna Maria Lindh var stungin til bana árið 2003 og Olof Palme skotinn árið 1986.

Ylva Anna Maria Lindh utanríkisráðherra Svíþjóðar.
Olof Palme sem sagði meðal annars: „Politik är att vilja.“

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Það ætti reyndar að porra mann upp að í innlendum fréttum er það helst að von er á því að hátt í þrjár milljónir ferðamanna komi hingað á árinu til að eyða sparifé sínu og fá okkur til að halda áfram að trúa því að uppsveifla í ferðamannaiðnaði sé Sjálfstæðisflokknum að þakka. Því miður er samt ekki eins og þessi skyndilega flóðalda af peningum dugi til að hressa upp á heilbrigðiskerfi sem er að hruni komið (fyrir utan að læknar hafa huggulegar tekjur). Og ekki bara heilbrigðiskerfið er í svelti heldur einnig skólakerfið, vegakerfið, húsnæðiskerfið og yfirleitt öll þau kerfi og stofnanir sem gera samfélag fólks að eftirsóknarverðu samfélagi en ekki bara þrælakistu og ræningjabæli.

Fullur baukur af geðlyfjum mundi tæplega duga til að gleðja mig eins og ástandið er þessa stundina og í rauninni ætti að setja mig í ritskoðun eða öllu heldur ritbann fyrir að eyðileggja gleðina fyrir þeim sem finnst lífið dásamlegt alveg burtséð frá raunveruleika annarra og einkavæðing samfélagsins í góðum gír og Ólafur sakleysingi  kominn með þennan líka fína samning við Reykjavíkurborg um stórkostlega uppbyggingu bæði Reykvíkingum og landi og þjóð til heilla…

Eða eins og Andrés Önd sá mikli meistari komst stundum að orði þegar ástandið var ekki gott í Andabæ: „Grrr. %%###“‼!“

Meistari Andrés Önd.
Þér gæti einnig líkað við
Ummæli
Hleð...