GYLFI ER EKKI BARA „ÓGEÐSLEGA GÓÐUR“ – HANN ER BESTUR!

(þótt ég sé að öðru leyti nokkuð sammála Styrmi um að þetta sé orðið "ógeðslegt þjóðfélag"

Ég er nú búinn að fylgjast með býsna lengi og get alveg verið sammála Styrmi Gunnarssyni sem segir að þetta sé „ógeðslegt samfélag“.

Sérstaklega eru kapítalistarnir okkar miklu ógeðslegri en þeir voru áður þegar ákveðin menntun og menningaráhugi var talinn sjálfsagður hlutur af því að vera fín og fáguð manneskja. Í gamla daga voru meira að segja ennþá til kapítalistar sem gátu glamrað soldið á píanó, nokkrir sem lásu bækur og einn og einn hafði meira að segja soldið vit á myndlist. Góðir kapítalistar á Íslandi munu vera útdauðir og sálar- og menningarlaus peningaskríll á menningarstigi Donalds Trumps kominn í staðinn.

Góðir kapítalistar eru í útrýmingarhættu vegna ofurgræðgi – eins og við öll.

Góðir og menningarlegir kapítalistar tilheyra sem sé draumum um liðna tíð og samfélag sem er að týna tungu sinni og menningu, samfélag þar sem fólk nær varla andanum fyrir græðgi og ósvífni, samfélag án menningarlegra gilda er býsna „ógeðslegt“.

En svo að maður reyni nú að sjá eitthvað jákvætt þá fer knattspyrnunni fram og meira að segja konur er farnar að leika þessa fallegu íþrótt. Eins og Styrmir fylgdist með pólitíkinni hef ég fylgst með knattspyrnunni og man vel eftir snillingum á borð við Ríkharð Jónsson.  Albert Guðmundsson sá ég, en að vísu ekki fyrren á sólarlagsárum stórkostlegs knattspyrnuferils eftir að hann fluttist heim til Íslands.

Fyrsti landsleikurinn sem ég sá var gegn Norðmönnum á Melavellinum árið 1954; sá leikur mun hafa verið tíundi í röðinni af landsleikjum Íslands í fótbolta en þeir eru nú orðnir rúmlega 450 talsins.

Ég hef séð þá alla snllingana sem eru of margir til að nefna hér þótt nöfn eins og Arnór, Pétur, Hemmi og Þórólfur Beck ryðjist fram í hugann. Ég sá Ásgeir Sigurvinsson þegar hann var meðal allra bestu fótboltamanna í Evrópu og Eiður Smári hefur ótal sinnum glatt mig með sínum töfrandi hæfileikum – en það er best að ég leyfi mér að segja það sem mig hefur lengi langað til að segja: Bestur þeirra allra og mesti knattspyrnusnillingur Íslands til þessa dags er Gylfi Þór Sigurðsson.

Gylfi Þór Sigurðsson. Myndin er af vefsíðu KSÍ.

Ég ætla ekki að gera lítið úr afrekum Lassa Lagerbaeck og annarra góðra manna en án Gylfa hefðum við aldrei komist á EM í knattspyrnu og þaðan af síður náð þeim árangri sem við náðum þar.

Samkvæmt ágiskunum lærðra manna eru núna um það bil 265 milljón fótboltamenn í veröldinni, konur og karlar á öllum aldri sem leggja stund á þessa íþrótt (áhorfendur og áhugamenn um íþróttina eru vitanlega miklu, miklu fleiri) – og í þessum stóra hópi er Gylfi Þór Sigurðsson meðal þeirra allrabestu. Meðal þeirra 30 bestu í veröldinni að mínu mati.

Hann er hreint út sagt ógeðslega góður!

Eftirminnilegur sigur á Englendingum á EM. Mynd af netinu.
Þér gæti einnig líkað við
Ummæli
Hleð...