HAMINGJAN GÓÐA!

Byggist ofsahamingja Íslinga á innri ró eða á góðum geðlyfjum?

Stundum finnst manni fréttir auka skilning manns á veröldinni.

Stundum eru fréttir svo skrýtnar eða mótsagnakenndar að sá litli skilningur sem maður taldi sig hafa á mannlegri náttúru og veröldinni hverfur í súld og þoku. Dæmi:

„Íslendingar eru þriðja hamingjusamasta þjóð í heimi annað árið í röð samkvæmt mælingum Sameinuðu þjóðanna. Norðmenn eru allra þjóða hamingjusamastir, hækka upp um þrjú sæti, og Danir, sem voru hamingjusamastir í fyrra, fylgja í humátt á eftir. Skýrslan kom út í dag í tilefni alþjóðadags hamingjunnar.“ (Úr frétt á ruv.is)

Þetta er vitanlega mjög ánægjulegt – ef það er einhver glóra í þessum hamingjumælingum í þeirri skýrslu sem kom út í tilefni Alþjóðadags hamingjunnar.

Hvergi er himinninn blárri en á Íslandi, enda eru Íslingar þriðja hamingjusamasta þjóð heims en forfeður okkar og formæður í Noregi fá gullverðlaunin fyrir methamingju.

Og það er soldið erfitt að koma þessari rosalegu hamingju heim og saman við aðra frétt sem einnig birtist á Alþjóðdegi hamingjunnar – á slóðinni visir.is:

„Mikil aukning hefur orðið í ávísunum þunglyndislyfja hér á landi á undanförnum árum. Notendur slíkra lyfja eru nú rúmlega tuttugu prósent fleiri en árið 2012. Mest er aukningin hjá ungmennum á aldrinum fimmtán til nítján ára, en notendur þunglyndislyfja á þessum aldri eru nú rúmlega sextíu prósent fleiri en fyrir fjórum árum.

Þetta kemur fram í samantekt sem embætti Landlæknis birti á vef sínum fyrir helgi. Árið 2016 leystu rúmlega 46.000 einstaklingar út þunglyndislyf á Íslandi en árið 2012 voru þeir 38.000. Það er aukning upp á 21,7 prósent á fjórum árum, sem verður að teljast mikið.“

Þessar misvísandi upplýsingar hljóta að kalla á spurninguna:

Byggist hamingjumet Íslinga á rosalega mikilli neyslu á góðum geðlyfjum?

Byggist hamingja Íslinga á á öryggi og innri ró eða mikilli neyslu á góðum geðlyfjum?
Þér gæti einnig líkað við
Ummæli
Hleð...