HELGARSKAMMTUR AF KAFFI

Soldil samantekt um eftirlætistökuorðið mitt í tungumálinu okkar

„Qahwah“ á arabísku, „kahve“ á tyrknesku, „koffie“ á hollensku, „kaffe“ á dönsku verður „kaffi“ á íslensku, eftirlætistökuorðið mitt í tungumálinu okkar.

Ég gæti lifað sæmilega hamingjusömu lífi án nettengingar, jafnvel án rafmagns – en það er tvennt sem mér þætti erfitt, eiginlega óbærilegt, að vera án, annars vegar bækur sem hressa hugann og forða manni frá einsemd og einangrun og í annan stað þessi lífdrykkur kaffi sem fjörgar, endurnærir og styrkir bæði líkama og sál.

Það er dapurlegt að hugsa til þess að mannkynið skuli hafa legið meinvillt og kaffilaust í myrkri árþúsunda, enda er það staðreynd að ljós nútímans fór ekki að skína hér í Evrópu fyrr en kaffið tók að berast hingað, trúlega einhvern tímann á sextándu öld.

Þótt margir haldi það þá er okkar góða Mokka á Skólavörðustíg ekki elsta kaffihús í heimi. Þessi gamla teikning er frá kaffihúsi í borginni Nýju Amsterdam sem nú hefur tekið upp nafnið New York.

Engar skriflegar heimildir eru til um hvar og hvenær var fyrst hellt upp á fyrsta kaffibollann. Rétt eins og mannkynið sjálft er kaffið upprunnið í Austur-Afríku og hugsanlega kennt við Konungsríkið Kaffa í Eþíópiu sem nú er sérstök sýsla í því landi en allir kóngar á bak og burt.

Orðið „Qahwah“ kemur úr arabísku en fyrstu trúverðugu heimildir sem til eru og staðfesta kaffineyslu eru frá miðri fimmtándu öld úr Súfista-klaustrum í Jemen og Súfistarnir helltu upp á kaffibaunir sem innfluttar voru frá Eþíópíu.

Kaffibolli frá dýrðardögum Kóngsríkisins Kaffa sem nú er bara sýsla í Eþíópíu.

Þann góða sið að drekka kaffi höfum við sem sé lært af Músílmönnum eins og fleira gott og fallegt. Reyndar voru Múhameðstrúarmenn fyrstir til að banna þennan ágæta drykk, það var í hinni helgu borg Mekka um 1511, en andlegir leiðtogar þar töldu að þessi drykkur hefði örvandi áhrif á róttæka hugsun sem vel getur verið rétt. Kaffibannið stóð þó ekki lengi meðal Múslima en andlegir leiðtogar sem vilja banna hluti finnast víða og næsta kaffibann sem vitað er um var á Ítalíu soldið seinna á sextándu öldinni, en þar töldu helstu trúartröll í klerkahópi að kaffið kæmi frá djöflinum og væri stórhættulegt kristnum mönnum.

Sem betur fer þótti páfanum, Klemens sjöunda, kaffisopinn góður og hressandi og hlustaði ekki á ruglið í klerkunum og aflétti kaffibanninu, enda hefur mikil og góð kaffimenning ríkt á Ítalíu allar götur síðan.

Klemens páfi sjöundi er til vinstri á þessari mynd stendur þarna við hliðina á Leó tíunda frænda sínum og tók við páfadómi af honum. Báðir voru þeir af Medici-ætt (en ættræknin var ekki fundin upp á Íslandi). Klemens kunni að meta kaffisopann og kom í veg fyrir að öfgaklerkar bönnuðu kaþólskum að hressa sig á kaffi.

Fleiri dæmi eru til um mislukkaðar tilraunir öfgamanna til að banna kaffidrykkju. Þegar Múrad IV settist í hásæti Ottómanaveldisins gerði hann tilraun til að banna kaffidrykkju með því að beita kaffidrykkjumenn barsmíðum og fleygja þeim í sjóinn sem voru algjörlega forfallnir. Frændurnir Gústaf III Svíakonungur og Friðrik mikli í Prússlandi reyndu báðir án árangurs að banna kaffidrykkju og Friðrik gaf út yfirlýsingu um að bjór væri miklu betri drykkur en kaffi þegar hann var farinn að hafa áhyggjur af því að tekjur ríkisins af bjórskatti væru farnar að dragast saman.

Fyrir mína parta tek ég undir með de Talleyrand þeim „athyglisverða“ manni sem lýsti svo vel hvernig gott kaffi á að vera: „Café : Noir comme le diable Chaud comme l’enfer Pur comme un ange Doux comme l’amour.” (Kaffi: Svart eins og skrattinn, heitt eins og Víti, hreint eins og engill, sætt eins og ástin). Svart og sterkt skal það vera og sætleikinn á að koma úr kaffinu sjálfu án viðbætts sykurs.

Nóg að sinni um þennan magnaða drykk, en það sem ég vildi sagt hafa var semsé að gott kaffi að morgni dags gerir góðan dag ennþá betri. Að lokum má geta þess að um helgina ætla ég að taka langan kaffitíma og þessi vefur verður ekki uppfærður fyrr en á mánudag, ef Guð lofar. Góða helgi!

Þér gæti einnig líkað við
Ummæli
Hleð...