HIN LANDLÆGA PLÁGA – TUDDAPÓLITÍK

Nóg er um tuddapólitísk mál sem naumur meirihluti á þingi er staðráðinn í að keyra ofan í kokið á allri þjóðinni

Skynsamleg lagasetning felst í alvöruumræðu en ekki sýndarmennsku og slepjulegum slagorðavaðli sem minnir mann frekar á geltandi hundaþvögu í fjárréttum en þjóðþing að störfum.

Þann dólgshátt að nota tímabundinn meirihluta á þingi (sem útheimtir ekki einu sinni meirihlutafylgi þjóðarinnar eins og dæmin sanna) til að þröngva minnihlutaskoðunum upp á alla þjóðina og lögfesta þær kalla ég TUDDAPÓLITÍK. Íslandi er stjórnað af frekum og þröngsýnum tuddapólitíkusum og pólitíkum. Svo bíta menn höfuðið af skömminni með því að kalla það frelsi eða lýðræði sem er í rauninni óþvegin tuddapólitík og ofbeldisfull misnotkun á  frelsi eða lýðræði.

Dæmi um tuddapólitísk mál sem naumur og tímabundinn meirihluti á þingi er staðráðinn í að keyra ofan í kokið á allri þjóðinni og þiggja í staðinn blessun og velvilja hagsmunaaðila eru til dæmis: Bús í búðir sem um 70 prósenta kjósenda eru mótfallnir (þessi heimskudella hefur löngum verið aðalbaráttumál og frelsistákn íhaldsbarna í Heimdalli); vegatollar sem jafnvel ennþá fleiri eru andsnúnir; eða einkavæðing heilbrigðisþjónustu sem þegar er vel á veg komin í blóra við vilja mikils meirihluta landsmanna; rétt eins og pólitísk skemmdarverk við að svelta og eyðileggja félagslega heilbrigðiskerfið sem hægrisinnaðir stjórnmálamenn hafa hamast við árum saman enda er nú svo komið að góð laun lækna á Íslandi einkum yfirlækna eru eitt af því fáa sem eftir lifir af félagslega heilbrigðiskerfinu.

Þingmenn sem klökkir fullyrða að FLOKKURINN standi hjarta sínu næst, en gleyma þjóðinni eru í hjarta sínu landráðamenn og það á að ógilda kjörbréf þeirra og kalla inn varamenn í þeirra stað meðan birgðir endast.

Meirihlutinn ræður er heimskulegt slagorð í fulltrúalýðræði þar sem kjörnir fulltrúar geta myndað ríkisstjórnir sem hafa meirihluta á þingi á bakvið sig en minnihluta kjósenda. Hagsmunir þjóðarinnar til langs tíma litið felast í því að stjórnmál taki mið af hagsmunum heildarinnar og tillit til skoðana þeirra sem ekki eru í meirihluta hverju sinni. Skynsamleg lagasetning felst í alvöruumræðu en ekki sýndarmennsku og slagorðarausi sem minnir mann frekar á geltandi hundaþvögu í fjárrettum en þjóðþing að störfum. Bolabrögð eru heimskuleg aðferð til að stjórna samfélagi fólks.

Lýðræði hefur marga galla og einn sá stærsti er meðal sá að hagsmunir einstakra stjórnmálaflokka eru sjaldnast hagsmunir heildarinnar. Þingmenn sem klökkir fullyrða að FLOKKURINN standi hjarta sínu næst, en gleyma þjóðinni eru í hjarta sínu landráðamenn og það á að ógilda kjörbréf þeirra og kalla inn varamenn í þeirra stað meðan birgðir endast.

Sem betur fer hafa margir krakkar og ungmenni sem eytt hafa æsku sinni á netinu rekist á dæmi þess að til eru í útlöndum þjóðfélög sem rekin eru á siðmenntaðan máta án tuddapólitíkur og hundgár. Þessir krakkar láta sig dreyma um að þannig verði þetta einnig á Íslandi með tíð og tíma. Segiði svo að ókeypis niðurhal hafi ekki sína kosti.

P.S. Í Evrópusambandinu sem íslenskir stjórnmálatuddar óttast og fyrirlíta er hefð fyrir því að freista þess að taka ekki stórar ákvarðanir án samþykkis allra aðildarþjóða.

Samræðustjórnmál og diplómatískar málamiðlanir, samvinna um þjóðþrifamál

Tuddapólitík – að þröngva minnihlutaskoðunum upp á meirihlutann og pína vilja minnihlutans uppá alla þjóðina. Dæmi: bús í búðir, vegatollar, einkavæðing heilbrigðisþjónustu. Þetta er fjandsamlegt lýðræðinu og fráleitt að tímabundinn meirihluti á Alþingi réttlæti að flokkar og stjórnmálamenn sem sitja þá stundina í valdastólum breyti íslensku þjóðfélagi í grundvallaratriðum um leið og þeir sjá færi til að þrönga vilja sínum upp á þjóðina gegnum tímabundinn meirihluta á Alþingi. Forseti Íslands er vörn okkar gegn svona dólgapóltíkusum. Nýja stjórnarskráin sem þjóðin hefur látið þartilkjörna fulltrúa sína gera væri þó ennþá betri vörn – en TUDDAPÓLITÍK og hagsmunaþjónusta hefur komið í veg fyrir að hún taki gildi.

Þér gæti einnig líkað við
Ummæli
Hleð...