Langskilvirkasta leiðin til jafnaðar er sú að allir verði moldríkir

Í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins hefur hinum ríku fjölgað og það sem mestu máli skiptir er að þeir eiga nú eiginlega allt sem er þess virði að eiga á Íslandi, meðan aularnir eiga verðtryggðar skuldir.

Þegar að því kemur að styðja ríka fólkið kemur Sjálfstæðisflokkurinn sterkur inn. Íhald áfram, ekkert stopp.

Alveg erum við stórmerkileg þjóð og búum staðföst í draumheimum þvermóðskunnar og látum veruleikann ekki trufla skoðun okkar á nokkrum hlut.

Til að kolvetnisjafna skriðdýrsháttinn gagnvart hinum ríku og íhaldsblætið er litið á Framsóknarflokkinn sem óæðra íhald, jafnvel sem þræl eða hjálpartæki, sem sjálfsagt er að sparka í og uppnefna – nema þegar innblásnir aðilar þar á bæ finna upp svo stórkostlega skáldleg loforð að öllum mætti ljóst vera að þau verði ekki uppfyllt – nema þá í draumheimum. Samt kraumar undir óánægja hjá smælingum sem styðja Stóra íhaldið og löngun til að hefna fyrir marblettina á sárum afturendum. Þessi löngun lýsir sér í sérstökum íhaldsframboðum annað slagið sem leggja áherslu á manneskulegt yfirbragð og gefa sig út fyrir að vera sérstakir „vinir litla mannsins“, sbr. Gunnar Thoroddsen, Albert Guðmundsson og nú síðast Viðreisn.

Í draumheimum þvermóðskunnar hefur verið ákveðið að Hrunið hafi í fyrsta lagi aldrei átt sér stað og í öðru lagi þá sé Hrunið Jóhönnu og Steingrími að kenna, en þau hafa stöðu Grýlu og Leppalúða í uppeldi jakkafatafóstra íhaldsins.

Ekki bara Hrunið heldur allir draumar sem ekki hafa ræst eru hins vegar Samfylkingunni að kenna þrátt fyrir langan vinnudag og samstöðu í síðustu stjórn við rústabjörgun og ræstingu. Vinstrigrænum (nema Steingrími) er hins vegar þakkað að landið skuli ekki hafa sokkið og prímadonnuköst og stjórnarandstaða stórs hluta flokksins er bæði gleymd og fyrirgefin af því að nú er Steingrímur ekki formaður lengur og núverandi formaður er einstaklega kurteis og kemur vel fyrir og hefur sveigjanlegar og frjálslegar skoðanir varðandi mengun í litlum skrefum og búvörusamninga og fleira smátt og gott.

Fyrir þjóð sem býr í draumheimum þar sem hver og einn hefur réttar skoðanir og tekur ekki mark á staðreyndum, rökum né skoðunum annarra og allrasíst raunveruleikanum getur allt gerst og Airbnb heldur uppi gengi krónunnar og óþekkti ferðamaðurinn hefur leyst þorskinn af hólmi sem undirstaða ebbnahagslífsins.

Þér gæti einnig líkað við
Ummæli
Hleð...