Ógnin er yfirvofandi – Vágestur á leið til landsins

Verslanir eins og H&M og Costco munu valda usla í íslensku efnahagslífi með því að flytja svonefnda "frjálsa samkeppni" með sér inn í landið. Fákeppni og samráð mun þó haldast óbreytt á flestum sviðum þannig að áfram verður líft í landinu - enn um hríð

Nú er viðskiptalíf á Íslandi í uppnámi enda margt að gerast. Stórverslanir eins og H&M og Costco eru komnar vel á veg með að opna útibú hér á landi. Þar fyrir utan hafa margir Íslingar tekið upp þann ósið að kaupa fatnað og annan óþarfa á Netinu.

Þetta leiðir til þess að samkeppni í verslun er nú huxanlega á leið til landsins í fyrsta sinn í ellefu hundruð ára sögu Íslandsbyggðar og sennilega mesta vá sem Íslandsbyggð hefur staðið frammi fyrir að meðtöldum bæði Svarta dauða og Móðuharðindum. Samkeppni í stað fákeppni, samráðs og einokunar getur kippt fótunum undan íslensku viðskiptalífi og valdið meira tjóni en tíu „vinstri stjórnir“ með tilheyrandi lífskjaraskerðingu. Hingað til hafa Íslingar verið að mestu lausir við samkeppni í viðskiptum, rétt eins og þjóðin hefur að segja má sloppið við plágur eins og hundaæði og félagshyggju. 7, 9, 13!

Sá óþjóðlegi ósiður að kaupa varning á netinu breiðist út eins og farsótt meðal neytenda.

Til þessa hefur tekist að koma í veg fyrir þá samkeppni og alskonar leiðindasamanburð við aðrar þjóðir sem mundi fylgja því ef Ísland gengi í Evrópusambandið, en það verður ekki við öllu séð og í augnablikinu virðist sem „frjáls samkeppni“ þessi erlendi vágestur sé að ryðja sér til rúms hér á landi. Vonir standa þó til þess að okkar framsýna ríkisstjórn geti stöðvað þessa öfugþróun eða að minnsta kosti frestað henni um nokkrar kynslóðir.

 

Margir hafa áhyggjur af því að risaverslunin Costco aðhyllist svokallaða „frjálsa samkeppni“ í viðskiptum og muni eiga erfitt með að aðlagast sérstökum viðskiptahefðum á Íslandi.

 

Það er þó huggun harmi gegn að sú samkeppni sem í vændum er nær ekki yfir mörg svið viðskiptalífsins, til dæmis heldur fákeppni áfram á bankamarkaði og samráð stórfyrirtækja mun haldast að mestu leyti óbreytt amk. á næstunni.

Þér gæti einnig líkað við
Ummæli
Hleð...