RÁÐHERRASTÓLL Í STAÐINN FYRIR ÞINGSÆTI ER DÚNDRANDI GÓÐUR BISNISS

Engar heykvíslar á Austurvelli en eru skoðanakannanir samt hættulegri en rafrettur?

Ný skoðanakönnun Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis sem birtist í Fréttó í morgun staðfestir það sem allir vissu fyrir, sem sé að Björt framtíð og Viðreisn fá aldeilis fyrir ferðina og myndu þurrkast út af þingi ef gengið væri til kosninga.

Talsmenn og konur þessara flokka (sem ekki vilja láta nafna sinna getið) réðu sér ekki fyrir ánægju með niðurstöðuna og sögðu í samtali við fréttastofu þessarar vefsíðu í morgun að útkoman hefði getað verið miklu verri.

„Þetta er bara skitin skoðanakönnun sem skiptir engu máli og allir bara eitthvað að rausa á netinu og ekki nokkur sála á Austurvelli nema túristar að taka mynd af okkur þegar við erum að skreiðast í vinnuna í Alþingishúsinu – það er ekki eins og þarna sé hellingur af brjáluðu fólki með heykvíslar.“

„Frekar en að velta sér upp úr fyrirsjáanlegum niðurstöðum þessarar skoðanakönnunar ætti fólk að hugleiða að það er ekkert ókeypis í pólitík frekar en í lífinu og að fá ráðherrastól í staðinn fyrir þingsæti (og halda þingsætinu út kjörtímabilið) er dúndrandi góður bisniss og sýnir viðskiptavit og aðlögunarhæfni okkar frábæru leiðtoga,“ sagði talsfólkið í morgun.

fullkomlega eðlilegt að blóðgjafi léttist en blóðþegi þyngist að sama skapi

Talsfólkið sem alls ekki vill láta nafna sinna getið var á einu máli um að ekkert nýtt kæmi fram í könnuninni og svona kannanir sem leiddu í ljós það sem allir vissu fyrir væru gersamlega óþarfar: „Það eina sem kemur í ljós,“ sagði fyrrnefndur ónefndur aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra, „er bara sú læknisfræðilega staðreynd að smáflokkar eins og aðrir sem gefa blóð léttast (tímabundið) en þeir sem þiggja blóð þyngjast að sama skapi (tímabundið).“

Talsfólkið ræddi einnig um truflandi áhrif skoðanakannana sem með vissu millibili valda óróa og kjaftagangi í þjóðfélaginu „og eru að öllum líkindum mun hættulegri en rafrettur,“ sagði ónefndur aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra sem við náðum tali af snemma í morgun þegar hann var á leið niður í þinghús til að verma ráðherrastólinn áður en heilbrigðisráðherra mætir á þingfund.

 

Heykvísl. Ónotuð. Myndin er af netinu.

 

Góður fb-vinur benti mér á að ef maður spegilvendir stóru forsíðumyndinni (sem er merkt ruv.is og ég fann á netinu og nota hér til að gleðja eigendur RUV en ekki í fjáröflunarskyni) þá kemur í ljós að á myndinni eru þrír Bennar: Talið frá vinstri Uncle Ben, svo kemur Big Ben  fyrir miðju og loks Ben Dover lengst til hægri.
Þér gæti einnig líkað við
Ummæli
Hleð...