„Sá sem flýr undan dýri“

merkileg bók eftir Jón Daníelsson um sakamálin sem ganga undir nafninu (Guðmundar-) og Geirfinnsmál

Í tilefni þeirra góðu tíðinda að ákveðið hefur verið að taka upp aftur hið svokallaða „Geirfinnsmál“ eða öllu heldur „Guðmundar- og Geirfinnsmál langar mig að benda á bókina „Sá sem flýr undan dýri“ eftir Jón Daníelsson, en þessi bók kom út á síðastliðnu hausti og er að mínu mati ekki bara velskrifuð og tímabær bók, heldur einnig skilmerkilegasta og greinarbesta frásögn og yfirlit sem ég hef lesið um flókna og ótrúlega sögu þessa máls. Mæli svo sannarlega með henni.

Eins og margir vita snúast þessi mál um tvö mannshvörf frá árinu 1974. Lík hinna horfnu hafa aldrei fundist, en furðuleg lögreglurannsókn spyrti þessi hvörf saman og taldi að sömu aðilar hefðu grandað tveim ótengdum mönnum sem höfðu horfið sporlaust á árinu, annar snemma árs og hinn seint á árinu. og málunum lauk með því að hópur fólks var dæmdur fyrir morð bæði í héraði og í hæstarétti. Þessi lögreglurannsókn þar sem saklausum mönnum var haldið í einangrunarvist langtímum saman á vægast sagt hæpnum forsendum meðan á rannsókn stóð og síðan sleppt og þeir fangar sem síðar voru sakfelldir voru beittir harðræði. Þeim sem harðræðinu beittu voru síðan fengnir til að rannsaka hvort þeir hefðu beitt harðræði en harðræði er lagaskrautmál yfir illa og ólöglega meðferð og komust rannsóknaraðilar að því að fyrir utan einn (verðskuldaðan) kinnhest hefði framkoma við vitni og sakborninga verið blíðleg og fögur í alla stað.

Fyrir utan þau meintu morð sem fjallað er um í bókinni, og fyrir utan réttarmorðin sem Jón Daníelsson bendir á að framin hafi verið á hinum dæmdu þá rann það líka upp fyrir mér við lesturinn að ótímabær dauðdagi Sævars Ciecelskis hlýtur að skrifast á reikning á íslenska réttarkerfisins og þar með íslensku þjóðarinnar. Sævar er dáinn og of seint að biðja hann afsökunar og bjóða honum sanngirnisbætur, en uppreisn æru skuldum við honum og þeim sem enn lifa af þeim sem voru ranglæti beittir af ríkismaskínu sem fór illilega út af sporinu á seinnihluta síðustu aldar.

Þessar línur eru ekki í neinum skilningi tilraun til að skrifa verðskuldaða og lofsamlega gagnrýni um þessa merkilegu og læsilegu bók heldur bara fáein fátækleg orð frá almennum lesanda til að þakka höfundi þarft og velunnið verk og vekja athygli á bókinni sem rifjar vel og skilmerkilega upp þessi sorglegu mál og þá skömm fyrir réttarkerfi þjóðarinnar og ábyrgð sem enn hvílir á okkur öllum.

 

Þér gæti einnig líkað við
Ummæli
Hleð...