Um heimilisfriðinn á Íslandi – heimili okkar allra

11. Nóvember 2016

Ég held að í vinstri- eða félagshyggjupólitík á Íslandi sé að verulegu leyti ungt og tiltölulega ungt menntafólk sem stýrir umræðunni í flokkum og félögum og ekki síst í fjölmiðlum. Aðrar raddir eru sjaldgæfari. Og þær raddir vantar okkur í þjóðkórinn, þær þurfa að heyrast og finna sér farveg meðal jafnaðarmanna.
Það vekur það athygli manns að skyndilega koma fram sósjaldemókratar af eldri kynslóðinni eins og Jeremy Corbyn í Bretlandi og Bernie Sanders í Bandaríkjunum og ná eyrum fólks með því að tala um „back til basics“ eða endurhvarf til þess að rifja upp grundvallaratriði félagshyggjunnar. Þetta endurhvarf er kannski ekki eins einfalt og auðvelt og ætla mætti því að nútímaþjóðfélag er að mörgu leyti allt öðru vísi en tam. um miðbik síðustu aldar.

Það er þó óbreytt og ennþá grundvallaratriði að fólk eigi heimtingu á þjóðfélagsgerð þar sem ríkir friður og öryggi og þjóðarsátt um ákveðnar undirstöður, eins og að allir borgarar skuli vera jafnir fyrir lögunum og eiga möguleika til að nýta hæfileika sína í námi og starfi, er þó það sem ekki breytist ef friður og sátt á að ríkja á heimilinu í stað sífelldra átaka um grundvallaratriði.

Hugmynd sósjaldemókrata um „þjóðarheimili“ er enn í fullu gildi. Ísland er heimili íslensku þjóðarinnar, okkar allra sem hér búum og störfum og lifum lífi okkar. Hér þarf að ríkja friður um ákveðin grundvallaratriði sem allir virða, svo sem félagslegt heilbrigðiskerfi, félagslegt skólakerfi sem tryggir aðgang allra. Við eigum sameiginlega auðlindir þjóðarinnar, hlunnindi þess lands sem við byggjum sameiginlega. Allar manneskjur án tillits til kynferðis eða trúarbragða eiga sömu mannréttindi og jöfnuður en ekki ójöfnuður er það sem friður í landinu byggist á. Manneskjur fæðast jafnar og eiga uppfrá því jafnan rétt til lífsins, til menntunar og heilbrigðisþjónustu. Við berum sameiginlega ábyrgð hvert á öðru og okkur ber að sjá til þess að ungir og gamlir, veikir og sterkir, geti lifað hér við bestu skilyrði sem sameiginlegur fjárhagur þjóðarinnar leyfir.

Jafnaðarstefnan er hugmyndin um samkomulag til að halda friðinn milli hægri og vinstri, einstaklingshyggju og félagshyggju. Við eigum jafnan rétt og þurfum að finna milliveg þannig að við getum öll lifað hér saman án sífelldra átaka um undirstöður þjóðfélagsins og hættu á að meirihluti þjóðarinnar taki upp á að misbjóða minnihlutanum á 4 ára fresti með því að þröngva upp á hann stórum þjóðfélagsbreytingum sem ekki er almenn sátt um meðal þjóðarinnar.

Á sama hátt eiga allir rétt á frelsi til skoðana, trúar og athafna svo fremi sem þær athafnir skaða ekki annað fólk eða samfélagið í heild. Og það er rétt að taka það fram vegna endalausra útúrsnúninga að hugmyndin um jöfnuð snýst ekki um að hirða með ofbeldi af þeim sterku, heppnu eða duglegu það sem þeir hafa getað aurað saman til að afhenda það landeyðum til að kaupa brennivín og dóp. Jöfnuður felst í því að byggja hér sameiginlega upp skemmtileg, mannelskt og réttlátt þjóðfélag með blómstrandi fjölbreyttu mannlífi og menningu.

Þér gæti einnig líkað við
Ummæli
Hleð...