Um líf og lífsgæði eldri borgara í Þýskalandi

og pissublaut, vanrækt gamalmenni á Íslandi

Í gær var ég að lesa merkilega grein í þýska vefritinu SPIEGEL ONLINE, Generationenstudie Die glücklichen Alten heitir greinin eða Hinir glöðu gamlingjar og hugsaði með mér að mikið væri gaman að sjá grein með samsvarandi upplýsingum í einhverjum íslenskum fjölmiðli.

Greinin í Spiegel fjallar sem sagt um kjör aldraðra í Þýskalandi (sem við köllum gjarna ellilífeyrisþega) og kannar álit þeirra og afstöðu til þeirra lífskjara og lífsgæða sem aldraðir búa við þarna í Þýskalandi í hjarta Evrópusambandsins.

Ástæðan fyrir því að ég leitaði eftir upplýsingum um kjör aldraðra erlendis var sú að ég var í uppnámi eftir að hafa rekist á tengil á Facebook sem vísaði á grein í DV sem er dagsett 22. febrúar, 2016 og er frásögn af pistli sem Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir skrifaði á eyjan.is.

 

Fyrirsögn í DV-greininni var:

„Hryllingur á hjúkrunarheimili í Reykjavík: Viltu að þetta bíði þín?“
– „Ef ég verð svona gamall vil ég heldur láta skjóta mig“

Og undirfyrirsögn var:

„Hún lá rennandi blaut uppi í rúmi en starfsstúlka sat frammi að borða“

Greinin er merkt: Ritstjórn DV ritstjorn@dv.is

Fátt bendir til annars en innihald greinarinnar sé enn í fullu gildi – sem þýðir að margt fólk hér á landi kvíðir ellinni, meðvitað um að sú þjónusta og aðbúnaður sem við bjóðum öldruðum er Íslendingum ekki eingöngu til sóma – þótt frá því séu til allrar lukku undantekningar – og í sumum tilvikum óboðleg.

En víkjum aftur að greininni í Spiegel. Þær upplýsingar sem hún inniheldur eru byggðar á könnun sem 4000 eldri borgarar í Þýskalandi á aldrinum 65 til 85 ára tóku þátt í. Stiklum nú á stóru yfir helstu upplýsingar og niðurstöður.

Tekjuhliðin. Meðaltekjur hópsins voru 2140 evrur eftir skatt á mánuði (240 þúsund ískrónur en verðlag í Þýskalandi er ekki fyllilega sambærilegt við verðlag á Íslandi). Tekjur hafa hækkað um 200 evrur frá árinu 2012 og þegar eldri borgarar í Þýskalandi hafa greitt fyrir föst útgjöld eins og húsnæði, mat og klæðnað þá eru að meðaltali eftir 628 evrur til annarra hluta (um 70 þúsund á einstakling). Það kemur því ekki á óvart að 62% aðspurðra töldu sig búa við „mjög góðan“ eða „góðan“ efnahag.

Í könnuninni er bent á að efnahagslegt öryggi þeirra sem byggja mest af tekjum sínum á ellilífeyri frá ríkinu sé í óvissu og geti tekið breytingum á skömmum tíma eftir því hvernig efnhagsástand landsins þróast og hverjir fara með pólitísk völd hverju sinni.

Í rannsókninni var fleira athugað en efnahagsleg afkoma. Til dæmis fannst mér mjög merkilegt að sjá svörin við því hversu ánægt eldra fólk væri með lífshlaup sitt fram til þessa.

Hversu ánægt er eldra fólk með lífshlaup sitt til þessa

  • 15% ánægðir
  • 70% sáttir
  • 10% ekki fyllilega sáttir
  • 1% óánægðir
  • 4% tóku ekki afstöðu

Margvíslegar upplýsingar til viðbótar um líf og kjör eldri borgara í Þýskalandi er þarna að finna, og það kemur í ljós að tölvunotkun er talsverð, sömuleiðis áhersla á heilsurækt af einhverju tagi.

Könnunin sýnir að með betri afkomu og meiri áherslu á heilsurækt dregur úr þeim áhyggjum eða kvíða sem ellin hefur löngum vakið með fólki sem komið er á efri ár.

Það sem mig langar fyrst og fremst til að gera með því að segja frá þessari grein í þýska tímaritinu Spiegel er að vekja athygli á því að mér vitanlega eru engar samsvarandi kannanir til sem tengjast efnahag og lífsgæðum eldri borgara á Íslandi – sem eru eins og óhreinu börnin hennar Evu hérna á landi alsnægtanna sem „égummigfrámértilmín-kynslóðirnar“ sem nú ráða ríkjum ættu að sýna sömu virðingu og öðru fólki. Að minnsta kosti þar til atkvæðisrétturinn verður tekinn af gamlingjum. Til þess að gamalt fólk fái sömu athygli og njóti sömu réttinda og aðrir þjóðfélagsþegnar þurfa fjölmiðlar einnig að fara að sinna þessum hópi. Húsnæðisvandi unga fólksins er umfjöllunarefni sem brennur á fjölmiðlum og það er hið besta mál að fjallað skuli vera um vandamál yngri kynslóða, hitt er verra að fjölmiðlar skuli láta eins og eldra fólk sé ekki hluti af samfélaginu heldur dáið og grafið.

Þér gæti einnig líkað við
Ummæli
Hleð...