UPPREISNARÁSTAND Á TORTÓLU

Búist við nýrri holskeflu peninga frá Íslandi - Ríkjasamband eina lausnin

Frelsishreyfing Tortólu (The Tortola Liberation Front) bregst við afnámi gjaldeyrishafta á Íslandi með því að ítreka kröfu sína um að eyjan segi sig úr lögum við Breta og stofni til ríkjasambands við Ísland.

„Við mundum að sjálfsögðu krefjast jafnstöðu með öðrum íslenskum eyjum,“ segir Maximilian Smith-Guevara talsmaður Frelsishreyfingar Tortólu, „en allir vita að til dæmis Engeyingar líða engan skort í íslenska hagkerfinu.“

Mr. Smith-Guevara situr hér fyrir hjá teiknara, en eðli málsins samkvæmt er The Tortola Liberation Front leynifélag enn sem komið er og meðlimir þess fara því huldu höfði.
Á síðasta fundi sínum samþykkti stjórn Félags tortólskra fjárfesta ályktun um að taka upp ríkjasamband þessara eyþjóða.

Sebastian Scrooge formaður Félags strandeigenda á Tortóla segir að nú megi búast við „nýrri holskeflu (tsunami) af peningum frá Íslandi og því ekki seinna vænna en að auðvelda fjárflutninga milli landanna með því að sameina þjóðirnar“.

Félag fjárfesta á Tortola (The Tortola Union of Investors) tekur einróma undir þessa kröfu og bendir á að hagstjórnin á Íslandi sé svo stórkostleg að Ísland rúmi ekki lengur alla peninga landsmanna og nú sé svo komið að hvergi sé hægt að stinga skóflu í sandinn á ströndum Tortólu án þess að rekast á íslenskar fjársjóðskistur. „Við værum hreinlega klikkuð ef við vildum ekki taka þátt í þessu Öskubuskuævintýri með Íslingum,“ segir í greinargerð frá Fjárfestafélaginu.

Þér gæti einnig líkað við
Ummæli
Hleð...