ÓTRÚLEGA MARGIR TEMJA SÉR MIKLAR VEFSETUR

sem leiðir til þess að nýtt vefsetur fær furðugóðar viðtökur og langt umfram væntingar

Í september árið 2014 fór fjöldi vefsíðna á Netinu yfir einn milljarð og síðan hafa þó nokkuð margar vefsíður bæst við, því að á hverri mínútu eru 70 ný vefföng skráð og 571 ný vefsíða bætist við. Og þarna er umferðin jafnvel meiri en á Keflavíkurflugvelli: Á hverri mínútu er smellt á 1,8 milljón „læk“ á Facebook og 204 milljónir netpósta þjóta af stað til viðtakenda.

Ný tengsl. Ný heimsmynd. Nýjir tjáningarmöguleikar.

Það munar vitanlega ekki mikið um einn kepp í sláturtíðinni, en undir lok síðasta mánaðar, dagana 22. til 23. febrúar bættist þessi vefsíða, thrainn.is eða thrainnbertelsson.is, í þann myndarlega hóp sem fyrir var á netinu.

Að halda úti vefsíðu finnst mér vera ágætis tjáningarmáti sem er í þróun og gaman er að fást við og nýstárlegra og ekkert síður gefandi en að sitja þrjá mánuði á ári við að skrifa skáldsögu sem í besta falli leiðir til viðtals í Kiljunni og lifir eina jólavertíð og ekkert síður listrænt en að sitja nokkra sólarhringa í glerbúri og kúka þar af einskærri tjáningarþörf.

Frómt frá sagt þá hef ég ekki fastmótaðar hugmyndir um í hvaða átt ég stefni með þessari vefsíðu né hvaða tilgangi henni er ætlað að þjóna í hinu stærra samhengi hlutanna fyrir utan að vera mér umhugsunar- og viðfangsefni; óvissuferð eins og reyndar lífið sjálft.

Í öllu falli byrjar þessi óvissuferð farsællega því að vefmælingar og rannsóknir á smellum og lækum gefa til kynna að að hún sé miklu fjölsóttari en ég átti von á og rjúfi þar með á sinn hátt einangrunarhjúp ellinnar og þeirrar útskúfunar sem stundum er fylgifiskur hennar.

Vonandi er það ljós skynseminnar sem skín á internetinu.

Það er gaman að sjá að vængir vaxa á sumar færslur og þær takast á loft úr hugarhreiðrinu og verða mörgum sýnilegar, enda virðast margir fylgjast vel með á netinu og temja sér miklar vefsetur; en ánægjulegra finnst mér þó að sannreyna að soldill hópur fólks fylgist að staðaldri með því sem ég hef ennþá fram að færa og fyrir það er ég þakklátur. 🙂

 

Þér gæti einnig líkað við
Ummæli
Hleð...