Á MORGUNVAKTINNI MEÐ THEOBALD

kraftaverk í mörgum litum og mjöll mjög svipuð þeirra sem féll í fyrra virðist hafa fallið aftur í morgun

Venjulega göngum við Theobald til morgunverkanna um sjö-leytið en í morgun sváfum við frameftir og það var orðið albjart þegar við komum út rétt fyrir klukkan átta að skoða þau kraftaverk sem hver nýr dagur færir okkur.

Það var snjóföl yfir öllu í morgun; kannski ekki sama mjöll og féll í fyrra en ótrúlega svipuð henni.

Við Theobald komum nokkuð vel undan vetri, hann hefur meira en þrefaldað þyngd sína frá því að hann kom til okkar um miðjan október á síðasta ári. Þá var hann 12 vikna gamall og 3,5 kíló á þyngd. Hann vegur núna 12,3 kíló og verður 7 mánaða núna á föstudaginn.

Alltaf þegar Theobald kemur út á morgnana byrjar hann á því að gera teygjuæfingar sem virðist vera sambland af austrænu jóga og Mullers-æfingum.
Meira að segja í illahirtum garði í Hafnarfirði heldur hringrás kraftaverkanna stöðugt áfram.

Ég sem hef lifað meira en tíu sinnum fleiri ár en hann hefur lifað mánuði hef sem betur fer ekki þrefaldað þyngd mína heldur léttist ég jafnt og þétt eins og ég einsetti mér að gera fyrir nær tveimur árum – og þann árangur sem ég hef náð þakka ég löngum föstum, mikilli hófsemi og gífurlegum sjálfsaga.

Theobald er sem sé að verða sjö mánaða gamall og sé þroskaferill hunda borinn saman við það sem tíðkast hjá manneskjum mundi hann vera að komast á gelgjuna – hundar þroskast hraðar en manneskjur, þannig að þumalputtareglan um að 7 ár hjá manneskju samsvari 1 hundsári tekur ekki tillit til þess að hvolpar þroskast á margan hátt hraðar en mannsbörnin.

Theobald er sonur þeirra Rósu og Orra og er því hreinræktaður franskur bolabítur og var fyrsti hvolpurinn sem kom í 8 hvolpa goti sem var fyrsta gotið hjá nýjum og frábærum hundaræktendum hérna Hafnarfirði, þeim Móeiði Sif og Sigurði Árna.

Það fyrsta sem ég keypti fyrir fyrsta hundraðkrónuseðilinn sem ég eignaðist var hvolpur og þeim peningum var vel varið. Sumir spyrja hvort það sé ekki hroðalega dýrt að kaupa hreinræktaðan hund og af hreinræktuðum hundum eru bolabítar í dýrari kantinum, því að það er á margan hátt erfiðara að rækta þá en ýmsar aðrar tegundir. Það breytir þó ekki því að mér fannst Theobald ekki dýr, jafnvel þótt það væri sjálfsagt hægt að kaupa sér ágætan þingmann fyrir svipaða upphæð, sérstaklega ef maður er útsjónarsamur og kaupir sér þingmannsefni á prófkjörsmarkaði. Þingmaður endist kannski ekki nema 4 ár og getur bitið það í sig að þjóna mörgum húsbændum, en góður hundur endist í meira en áratug ef allt er eðlilegt og er húsbændum sínum trúr og tryggur.

Theobald samsamar sig oft með Greifanum af Monte Cristo sem sat saklaus bakvið rimla en slapp úr haldi og fann mikla fjársjóði.

Theobald segist sjálfur stefna að því að verða huxandi hundur og ég vona að hann nái því markmiði sínu með tíð og tíma, jafnvel þótt það sé ekki alveg komið að því núna. En daglega færir hann með sér gleði og hlátur inn á heimilið, honum þykir það stórmerkilegt sem margir aðrir líta á sem sjálfsagða hluti og honum verður allt að leik. Hann er góður félagi og gerir lífið skemmtilegra og í tilefni þess að þessi litli höfðingi verður sjö mánaða í þessari viku langar mig að rifja upp falleg orð eftir rithöfundinn Þórberg Þórðarson, þótt ég sé ekki endilega viss um að hann hafi haft tiltekinn franskan bolabít í huga þegar hann skrifaði þau niður, en Þórbergur sagði þetta:

„Sá sem veitir mannkyninu fegurð er mikill velgerðarmaður þess. Sá sem veitir því speki er meiri velgerðarmaður þess. En sá sem veitir því hlátur er mestur velgerðarmaður þess.“

Þér gæti einnig líkað við
Ummæli
Hleð...