Bankinn „minn”

Nokkur orð um raunverulegar blóðsugur

Þau bankaviðskipti sem ég stunda og hef stundað undanfarin ár eru ekki flókin og það kostar bankann hvorki mikla vinnu né fyrirhöfn að taka mánaðarlega við föstum tekjum mínum og greiða mér litla sem enga vexti en rukka drjúgan kostnað og lána síðan út þessa peninga á háum vöxtum.

Allt hefur þetta verið gersamlega áhættulaust fyrir bankann síðan ég hætti áhættufjárfestingum í rekstri (kvikmyndagerð) sem ég stundaði í áratugi sem mitt ævistarf til að skapa mér og öðrum vinnu; ég hef sem sagt eingöngu verið í viðskiptum við einn banka að heitið geti síðustu áratugi og lagt þar inn allar tekjur mínar og bankinn er eini aðilinn sem ég skulda peninga, það er vegna svokallaðra húsnæðislána sem margir kannast við (plús eitt bílalán upp á rúma milljón) og ég greiði af þeim um hver mánaðamót og enn sem komið er hefur greiðsla aldrei dregist hvað þá fallið niður, sjö, níu, þrettán.

Bankinn hefur svo eins og bankar gera og hafa gert um aldir og mér að meinalausu getað lánað út með vöxtum og verðbótum þá aura, þær tekjur sem ég dreg saman, kem með og legg inn í bankann og þar sem margt smátt gerir eitt stórt getur bankinn lánað út stórar fúlgur og haft af þessu verulegar tekjur – ekki síst þar sem nú er aflagður sá siður að borga amk. táknræna vexti af hlægilega lágum innistæðum launafólks, og í stað þess er litið á það sem verðmæta þjónustu af hálfu bankans að sjá um að blessað fólkið sem ekkert vit hefur á peningum geymi þessa fjármuni ekki heima hjá sér eða grafi í jörð að húsabaki.

Allir alvöruglæpamenn eru búnir að fatta að gamaldagsbankarán eru úrelt fyrir löngu og eiga nú eða reka banka til að geta látið greipar sópa vasa almennings og smáfyrirtækja.

Nú virðist hins vegar svo komið að þessi viðskiptabanki minn telji sig ekki lengur geta staðið þeirri fornu atvinnugrein sem kallast bankastarfsemi heldur hefur hann breytt sjálfum sér í „þjónustustofnun“ („spilavíti“ væri reyndar meira lýsandi) án þess þó að leggja niður bankanafnið og hefur í því tilefni gefið út verðskrá með prísum á mörg hundruð nauðsynlegum viðvikum sem mestan part eru sjálfsagður hluti af óhjákvæmilegum samskiptum banka og viðskiptavini – svo að banki geti haldið áfram þeirri hefðbundnu grunnstarfsemi sinni sem er og hefur alltaf verið að lána út peninga sem bankinn varðveitir fyrir viðskiptavini sína.

Ég ætla ekki að fjölyrða um þessa verðskrá, en fyrir venjulegt fólk sem neyðist til að vera í viðskiptum við þessi fyrirtæki sem einu sinni voru bankar en ekki spilavíti og raunverulegar þjónustustofnanir fyrir sitt nærsamfélag þá getur þessi hrollvekjandi lesning verið lærdómsrík lexía um þá dýrslegu græðgi sem nú ógnar samfélagi okkar á ný eftir að vinnusemi almennings og óvænt flóðbylgja ferðamanna gerðu þjóðinni mögulegt að bjarga sér úr rústum Hrunsins – sem var afleiðing síðfrjálshyggju, siðleysis og bankagræðgi eins og fræðast má um í 9 binda skýrslu um þennan ógeðslega atburð.

Ég skora á ríkisstjórn Íslands og Alþingi og Neytendasamtökin að láta til skarar skríða fyrir hönd landsmanna gegn þessu óseðjandi og illkynjaða æxli græðginnar á þjóðarlíkamanum – en fyrst og fremst skora ég á almenning að láta ekki bjóða sér svona niðurlægingu endalaust.

Þér gæti einnig líkað við
Ummæli
Hleð...