Hvernig hinar Villtu Vestmannaeyjar komu í staðinn fyrir Villta vestrið
Byssubófarnir Butch og Sundance og íslenskir afkomendur þeirra
Einu sinni fyrir langalöngu (frá ofanverðri nítjándu öld og fram í byrjun þeirrar tuttugustu) voru á dögum í hinni ungu Ameríku tveir glæpamenn sem hétu Robert Leroy Parker og Harry Alonzo Longabaugh, betur þekktir sem Butch Cassidy og The Sundance Kid. Ásamt með glæpagenginu sem gekk undir nafninu „The Wild Bunch“ sérhæfðu þeir Butch og Sundance sig í að ræna banka og járnbrautarlestir og voru þekktir fyrir að vera ekki alveg jafnbyssuglaðir og ofbeldisfullir og flestir aðrir sem störfuðu á þessu sviði ofbeldis um þetta leyti – þó er talið að minnst fimm manns hafi látið lífið af þeirra völdum.

Glæpir borga sig ekki. Að minnsta kosti ekki minniháttar glæpir eins og bankarán og aðrar ógnanir við eignarréttinn svo að vopnuð lögregla var á hælum þeirra félaga og þeir sáu sér þann kost grænstan að flýja land og freista gæfunnar í Suður-Ameríku. (Með í för var unnusta Longabaughs, Etta Place).

Næst gerist það að glæponarnir Butch og Sundance eru kallaðir til nýs lífs af handritshöfundinum William Goldman og leikstjóranum George Roy Hill í kvikmynd sem frumsýnd var síðla árs 1969: „Butch Cassidy and the Sundance Kid“ þar sem leikararnir Paul Newman og Robert Redford fóru með titilhlutverkin og Katharine Ross lék Ettu Place. Músíkina samdi Burt Bacharach og myndatöku stjórnaði Conrad L. Hall.
Seinna hlé í rúm 10 ár
Meðgöngutíminn hefur þá verið 13 ár, því að árið 1983 komu svo skilgetnir tvíburasynir þeirra Butch og Sundance fyrir augu íslenskra kvikmyndaunnenda og heita Þór Magnússon og Daníel Ólafsson betur þekktir sem Þór og Danni, í frábærri túlkun leikara sem allir þekkja og heita Eggert Þorleifsson og Karl Ágúst Úlfsson og tókst að gera Butch og Sundance úr Villta vestrinu að trúverðugum farandverkamönnum í verbúð og í frystihúsi í Vestmannaeyjum.