Dýrt spaug að varðveita heimsfriðinn

Trump vill fjölga kjarnaoddum Bandaríkjanna: „Við ætlum að vera atkvæðamestir“

Á visir.is er sagt frá því að Trump Bandaríkjaforseti vilji ekki horfa í aurinn þegar að því kemur að varðveita heimsfriðinn og liggi nú yfir að skoða dagsprísinn á kjarnaoddum með það í huga að fjölga þeim stórlega.

Á vefsíðunni Foreign Policy in Focus segir Russ Wellen og vitnar í Robert Alvarez um gangverð á atómvopnum, að hin ágæta orustuflugvél „B-2 Spirit Stealth“ muni kosta 2,2 milljarða dollara, en dagsprísinn á dollurum er núna mjög hagstæður, um hundrað og tíkall stykkið. Kosturinn við „B-2“ er burðarþolið en með þessari góðu vél er hægt að flytja um 20 tonn af varningi, til dæmis kjarnorkusprengjum hvert sem þeirra er þörf  á mettíma.

Það er augljós skortur á góðum kjarnaoddum til að heimsbyggðin geti haldið áfram að sofa í friði og ró, því að Bandaríkjamenn eiga ekki nema um 7300 stykki af kjarnavopnum og árlegur kostnaður við hverja einingu er um 1,8 milljón dala sem eru 197.152.245,000 ískrónur og 35 aurar.

Sparnaðarsinnar eins og ég telja að þótt kjarnaoddar séu ábyggilega góð fjárfesting þá sé skynsamlegra að bíða með að fjölga þeim og láta heldur heimshlýnun sjá um að útrýma mannkyninu. Það gæti tekið heldur lengri tíma – en væri miklu ódýrara, eiginlega ókeypis.

Uppspretta visir.is FPIF
Þér gæti einnig líkað við
Ummæli
Hleð...