ELDRI BORGARAR TRYLLAST AF FÖGNUÐI
Frelsi undan gjaldeyrishöftum gerir þeim mögulegt að komast með krónugróða góðærisins úr landi strax á þriðjudag
Kölluð hefur verið út aukavakt hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu vegna þess að margir eldri borgarar virðast hafa sleppt fram af sér beislinu og tryllst af fögnuði yfir því að nú hefur verið ákveðið að aflétta gjaldeyrishöftum frá og með nk. þriðjudegi.


Við þetta opnast tækifæri fyrir eldri borgara til að koma úr landi þeim ofsagróða í íslenskum krónum sem góðærið hefur fært þeim og breyta krónunum í alvörupeninga áður en gengið hrynur.
Hinn gífurlegi fögnuður sem brotist hefur út við þau tíðindi að gjaldeyrishöft verði lögð niður þykja minna á gleðskapinn á síðustu dögum Rómaveldis.
Utan af landsbyggðinni berast þau tíðindi að sýslumannsembætti víðast hvar hafi aukið eftirlit með elliheimilum og öldrunardeildum og fylgist grannt með ástandinu, en almenningi er þó ráðlagt að halda kyrru fyrir á heimilum sínum þar til á þriðjudag í von um að ástandið verði þá aftur eðlilegt.