Daglega – ef ég kemst upp úr körinni – förum við Theobald í heilsubótargöngu, hreyfing ku vera góð fyrir líkamann og fyrir sálina er nauðsynlegt að neyta fegurðar helst ekki sjaldnar en þrisvar á dag. Fegurðarneysla okkar utanhúss felst í fögru landslagi í umhverfi Hafnarfjarðar (ef veður leyfir) eða fallegum bæjarstæðum í hrauninu eða fallegum manngerðum byggingum, litlum og stórum.
Theobald biður mig oft að fara með sig í álfa- og huldufólksskoðun í Hellisgerði og ég hef ekki þorað að segja honum að hér ríkir sami endalausi hundafasisminn og víða annars staðar á Íslandi, og í Hellisgerði er bannskilti gegn hundum. Þetta er örugglega komið frá einhverjum hálfvitum í bæjarstjórn því að ekki trúi ég því að huldufólk eða álfar séu dýrahatarar og rasistar, og reyndar líklegri til að hafa illan bifur á mannfólki frekar en hundum.

Hvaleyrarvatn er sá staður í nágrenni bæjarins sem okkur þykir mest til koma og þar fáum við okkur bita af fegurð flesta daga. Í dag spurði Theobald (sem hingað til hefur látið sig dreyma um að verða pappírstætari þegar hann fullorðnast) hvort ég héldi að hann geti með tíð og tíma fengið amk. hlutastarf sem snjóplógur.
Stundum erum við Theobald að svipast um eftir „guðseindinni“ og við erum hreint ekki frá því að í dag höfum við séð henni bregða fyrir.

