GÓÐAR FRÉTTIR OG VONDAR – MJÖG VONDAR

Tekst Íslingum að útrýma í sér mennskunni?

Því miður eru „góðar fréttir“ eða fréttir sem gleðja mann í miklum minnihluta og jafnvel útrýmingarhættu, og ef geimverur fylgjast með fréttum og fjölmiðlum hérna á jörðinni, til dæmis á Íslandi, þá verður heildarniðurstaðan sú að jörðin/Ísland sé mjög hættulegur og erfiður staður þar sem fólk sé ekki gott hvert við annað, heldur sé mannlegt samfélag undirlagt af illindum, miðklíð, vonsku, lygum, svindli, spillingu, glæpum, slysum og hörmungum og lítið fari fyrir gæskunni, þótt finna megi smáfréttaklausur um fegurð og góðsemi ef vel er gáð innan um sorann og svínaríið.

Ísland eins og það kemur geimverum fyrir sjónir. Myndin er fengin af netinu.

Gamalt mál segir „svo má illu venjast að gott þyki“ og það er ekki ný bóla að vondar fréttir þykir betri (sölulegri) fréttir en góðar fréttir og á langri leið myndast á manni fréttaskrápur og maður hættir að tárfella. Ég er þó alls ekki að segja að við eigum að horfa framhjá illskunni og því sem miður fer og birta eingöngu fréttir af gæsku og góðverkum, því að auðvitað er nauðsynlegt að spegla illskuna og það sem aflaga fer svo að við getum tekið okkur á. Hættan er bara svo að maður verði ónæmur fyrir vonskunni og finnist hún vera sjálfsagður og ómissandi partur af veröldinni.

Stundum kemur það þó fyrir enn þann dag í dag að ég les fréttir sem eru svo hræðilegar og nístingskaldar og afhjúpa myrkustu afkima mannlegrar náttúru þannig að mér blöskrar.

Núna áðan var ég að lesa ítarlega og velskrifaða frétt á stundin.is þar sem fyrirsögn og undirfyrirsögn eru svohljóðandi:

Fóstrum með Downs hvergi eins markvisst eytt og hér

Downs-heilkennið er hvorki sjúkdómur né vansköpun, þrátt fyrir að vera sett undir þá skilgreiningu í lögum um fóstureyðingar. Þetta áréttar Þórdís Ingadóttir, formaður Félags áhugafólks um Downs-heilkennið, sem segir að aukinnar umræðu sé þörf í samfélaginu og á vettvangi stjórnmála um þá staðreynd að nær öllum fóstrum sem greinast með Downs-heilkenni sé eytt hér á landi.

Fallegt bros, fallegt barn. Myndin er fengin af netinu.

Mér finnst þessi frétt vera skelfileg staðfesting á því sem ráða má af svo mörgum öðrum fréttum – sem sé að við Íslingar sem þjóð og samfélag séum ekki stödd á góðum stað í tilverunni. Það er svo margt annað sem gæti verið betra og skynsamlegra fyrir okkur og aukið hamingju og velferð okkar og alþjóðlegan orðstír meira en að setja heimsmet í að eyða fóstrum barna með downsheilkenni.

Þjóð sem hugsar jafnmikið um efnisleg gæði og við Íslingar gerum um þessar mundir og að sama skapi lítið um að ávaxta okkar andlegu sjóði, mannúð, menningu og tungu gæti orðið fyrir því óláni að verða fyrsta þjóð í heimi sem tekst að útrýma í sér mennskunni.

Falleg bros, fallegar manneskjur. Myndin er fengin af netinu.
Þér gæti einnig líkað við
Ummæli
Hleð...