HÁVAÐINN Í KRINGUM OKKUR
Ljóðið sem stekkur eins og laxfiskur upp úr vatnsborðinu í huga mér þessa dagana er eftir skáldið Njörð P. Njarðvík og fjallar um hávaðann í kringum okkur sem ætlar allt að æra
Mér líður ekki úr minni magnað, heillandi ljóð um „Hávaðann í kringum okkur…“ eftir Njörð P. Njarðvík skáld og fræðimann.
Ég gleymi orðið flestu sem ég les jafnóðum og ég les það en þetta ljóð hefur neitað að hverfa inn í þokuna og línur úr því rifjast upp fyrir mér daglega, enda hef ég lengi haft það á tilfinningunni að þögnin sé tungumál viskunnar.
Mér finnst þetta ljóð vera fallega hugsað, vel orðað og skáldlega ort, og það á erindi til okkar allra, jafnt þeirra sem elska kyrrðina og njóta þess að hlusta eftir hvíslinu í grasinu og þeirra sem hafa ánetjast hávaðanum og hafa ekki hugmynd um að þeir fari á mis við þyt golunnar.
Hávaðinn í kringum okkur
drepur hljóðin
eitt af öðru
Hvíslið í grasinu hljóðnar
þytur golunnar þagnar
hjal lækjarins lognast út af
þytur hrossagauksins hrapar
kvak lóunnar kafnar
Jafnvel drunurnar í fossinum drukkna
Loks er ekkert annað eftir
en ærandi hávaði
Á honum vinnur ekkert
nema þögnin
Ljóðið er birt með leyfi höfundar.