HEIMA ER BEST

Hugleiðingar um sparnað og hagsýni þeirra sem halda sig heima við í staðinn fyrir að flengjast um landið

Maður er alltaf að græða.

Um helgina sparaði ég 2390 krónur tvö kvöld í röð (samtals 4780 krónur) á því að neita mér um að kaupa súkkulaðiköku með kaffinu eftir kvöldmatinn. Ef ég hefði líka afþakkað sveppasúpuna sem var í forrétt og kostaði 1972 krónur og 97 aura í hvort skipti hefðu 3945 krónur og 95 aurar getað bæst við sparnaðinn og heildargróði eftir tveggja daga dvöl hefði þá numið 8725 krónum og 95 aurum.

Theobald sem er hagsýnn hundur er ákaflega hrifinn af því að fá sér sykurlausan polla-ís sem hann finnur á förnum vegi í eftirrétt.

Þetta var á ódýrasta gistihúsinu sem ég fann á Suðurlandi og ef ég hefði haft vit á því að dvelja þarna í viku og neita mér um forrétt og eftirrétt á kvöldin eins og ég geri yfirleitt heima hjá mér hefði ég getað grætt 4362 krónur og 97 aura á dag eða samtals 30.540 krónur og 79 aura á 7 dögum.

Með því að vera þarna í mánuð án súkkulaðikaffis og sveppasúpu á kvöldin hefði þetta getað orðið umtalsverður sparnaður eða samtals 130.889 krónur og 10 aurar á 30 dögum.

Með því að pæla í hvað hægt er að spara mikla peninga með lítilli fyrirhöfn dettur mér í hug að með því að fasta á kvöldin hefði ég getað sparað aðalréttinn líka, en hann kostaði  5.360 krónur og 36 aura. Það er kannski ekki raunhæft en með því að neita mér um heita kvöldmáltíð þarna í heilan mánuð hefði ég getað sparað samtals 160.810 krónur og 80 aura til viðbótar við sveppasúpu og súkkulaðiköku sparnaðinn, það gera 291.699 krónur á mánuði og það munar um minna.

Með þvi að sofa í bílnum eða bara með því að halda mig heima í staðinn fyrir að vera að þvælast út í land og sofa þar í hjónarúmi fyrir 11.494 og 59 aura á nóttu gæti ég sparað 344,837 krónur og 70 aura á mánuði. Þannig að venjulegt fólk sem hefur vit á því að halda sig heima hjá sér í staðinn fyrir að flengjast um landið, drekkandi sveppasúpu og úðandi í sig súkkulaðiköku á hverju kvöldi og sefur bara í sínu eigin rúmi er að spara 636,538 krónur á mánuði fyrir nú utan eldsneytiskostnað og dekkjaslit.

Það vill nefnilega gleymast að taka með í reikninginn að venjulegt fólk sem heldur sig heima við er að spara hátt á sjöunda hundrað þúsund krónur á mánuði – sem mér finnst að fólk ætti að hafa í huga þegar það er að sífra um að 170 til 200 þúsund kall í ellilífeyri sé ekki mikill peningur.

Þessir tveir aukastafir á hótelreikningum sem ég held að tákni aura hljóta eiginlega að vera þannig tilkomnir að hóteltölvan sé stillt inn á evrur sem hún umreiknar samstundis yfir í krónur og aura þannig að bókhaldð verði nákvæmara og hver eyrir skili sér til skatts úr ferðaþjónustunni.

Þér gæti einnig líkað við
Ummæli
Hleð...