HELGILEIKUR Á AKRANESI : ARS PRAEDICANDI

Hjartans þakkir fyrir listræna lexíu í formi hins sígilda helgileiks um tögl og hagldir og eðli valdsins yfirleitt og kapítalismans sérstaklega

Mig langar að þakka stjórnendum fyrirtækisins Granda hf., íbúum Akraness, þingmönnum Norðvesturkjördæmis, íslenskum fjölmiðlum og öllum þeim sem ýmist viljugir eða nauðugir komu að uppfærslu hins fagra og sígilda helgileiks með sinn skýra boðskap um eðli kapítalismans og yfirburði peningavaldsins umfram hið veikburða lýðræði.

Málverk eftir Franz Matsch, frá 1885 af uppfærslu á helgileik frá miðöldum.

Það styrkir mann á gamals aldri þegar breytingar vekja manni ugg að fá það staðfest með listrænum hætti að í raun og veru eru það sömu sterku aðilar og alltaf áður sem hafa töglin og hagldirnar í íslensku þjóðfélagi, þannig að framtíð okkar er í öruggum höndum hvað svo sem líður kjaftaskúmum og lýðskrumurum sem kenna sig við lýðræði.

Þessi fagri helgileikur sem settur var upp á Akranesi sýnir að því fer fjarri að íslenskir kapítalistar hafi glutrað niður menningarlegum gildum og kunni ekki að meta fagrar listir eins og frumkapítalistarnir góðu sem við eigum það að þakka að við skulum ekki búa í moldarkofum enn þann dag í dag.

Það er lágmarkskrafa að ríkisstjórn Íslands launi þennan fórnfúsa og menningarlega gjörning með alvörugengisfellingu sem gæti gert sjávarútveg arðbæran á ný. Við erum að tala um alvöru gengisfellingu upp á gamla sígilda mátann en ekki eitthvert málamyndafúsk og hagfræðikjaftæði í tengslum við að fóðra hrægamma með „tilheyrandi gengisáhrifum“.

Tögl og hagldir (að vísu vantar reiptöglin á myndina en hagldirnar eru þeim mun betri) – þessa fögru gripi ættu Íslingar að hafa mótaða í stein utan á Alþingishúsinu í staðinn fyrir skjaldarmerki dansks konungs sem að vísu var ágætur kapítalisti á sinni tíð, en þó ekki sígildur.

 

Þér gæti einnig líkað við
Ummæli
Hleð...