Hindber og hugrenningatengsl á morgungöngu

"Smultronstället" - "Hallonstället" - Hindberjalautin

Sumarið 1957 gerði snillingurinn Ingmar Bergman eina af sínum bestu myndum. „Smultronstället“ heitir hún á sænsku. „Smultron“ eru jarðarber sem vaxa villt og „stället“ þýðir staðurinn og á ensku sem nú er yfir og allt um kring heitir myndin „Wild Strawberries“.

Orðið „“Smultronstället“ merkir ekki bara staður þar sem vaxa villt jarðarber heldur merkir orðið „griðastaður“ eða „helgur staður“ og er notað um einhvern stað sem hefur sérstaka þýðingu eða merkingu í lífi manns, kannski væri „Berjalautin“ brúkleg þýðing.

Til að leika aðalhlutverkið prófessorinn og öldunginn Ísak Borg fékk Bergman einhvern frægasta kvikmyndagerðarmann Svíþjóðar og heimsins frá tímum þöglu myndanna, Victor Sjöström (sem gerði m.a. fræga mynd um Fjalla-Eyvind og eiginkonu hans árið 1917).

Þarna eru þeir saman snillingarnir Sjöström og Bergman. Til að fá Sjöström til að taka að sér hlutverkið var honum sagt að hann þyrfti ósköp lítið annað að gera en liggja undir tré og eta jarðarber og rifja upp liðna tíð. Hlutverkið reyndist síðan ofurlítið flóknara en svo.

Nema hvað mér varð huxað til þessarar fallegu myndar og kvikmyndasnillinganna tveggja sem hafa auðgað líf mitt og margra annarra í síðustu viku þegar við Theobald gengum fram á „hindberjalaut“ á okkar daglegu göngu í nágrenni Hvaleyrarvatns sem er „berjalaut“ okkar tilveru og griðastaður.

Hindber heita reyndar „hallon“ á sænsku en ekki „smultron“ svo að ég er ekki alveg klár á hvaðan tengingin við kvikmyndina góðu kom upp í hugann.

Á hindberjastaðnum eða „berjalautinni“ okkar Theobalds vaxa lítil og bragðgóð villt hindber – ekki jarðarber – og undanfarna daga höfum við hvílt okkur á göngunni og hresst okkur á þessum ljúffengu berjum og rætt saman um óendanlega fjölbreytni einfaldleikans og furðulegar og fjarlægar tengingar hinna óskyldustu hluta.

Dauðinn og riddarinn Antonius Block sitja yfir frægri skák. Skýin yfir Hvaleyrarvatni í baksýn.

Og svo dáumst við líka að því í hversu miklu stuði Ingmar Bergman hefur verið þetta sumar, 1957, því að þá gerði hann ekki bara „Berjalautina“ heldur líka „Sjöunda innsiglið“, myndina þar sem krossferðarriddarinn Antonius Block (Max von Sydow) situr að tafli við Dauðann (Bengt Ekerot) og lýkur þá hugrenningatengslum okkar Theobalds út frá hindberjatínslunni í morgun.

Þér gæti einnig líkað við
Ummæli
Hleð...