MEÐ BROS Á VÖR

Nýjar brosrannsóknir sýna að síbros getur huxanlega haft sömu dáleiðsluáhrif í stjórnmálum og í myndlist - gæti gjörbylt stjórnmálum til frambúðar

 

Rannsóknir á dularmætti brosa hafa verið stundaðar síðan menn áttuðu sig á því að vinsældir frægasta málverks í heimi, Monu Lisu eftir Leonardo da Vinci, byggist fyrst og fremst á leyndardómsfullu brosi sem leikur um varir fyrirsætunnar, frú Lisu Gherardini, sem er frekar illa tilhöfð á myndinni, virkar ósofin og er lítið förðuð, augabrúnir mjög dauflegar; þannig að það er án efa brosið sem hrífur áhorfandann og dáleiðir.

Íslingar eru kannski ekki brosmild þjóð, en þó hafa íslensk skáld gert sér grein fyrir áhrifamætti brosa, samanber það sem Einar Ben (nei, hann var ekki af Engeyjarættinni) sagði í Einræðum Starkaðar: „Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt, sem dropi breytir veig heillar skálar. „

Þetta bros sem leikið hefur um varir frú Gherardini í rétt um 500 ár hefur heillað margar kynslóðir og nú er svo komið að örtröð ferðamanna til að skoða málverkið þar sem það hefur hangið upp almenningi til sýnis í Louvre-safninu í París (síðan 1797) er orðin svo gífurleg að hleypt er inn í hollum og hvert holl fær aðeins stutta stund til að skoða myndina og taka sjálfhverfur.

Nýjar brosrannsóknir sýna að leyndardómsfull og aðlaðandi bros geta gert kraftaverk og áhrif þeirra eru skyld dáleiðslu. Bros kattarins í Lísu í Undralandi staðfestir að jafnvel óaðlaðandi skepnur geta náð dáleiðsluáhrifum með brosi sem býður upp á mikla möguleika fyrir t.d. stjórnmálamenn.

Bros kattarins í Lísu í Undralandi staðfestir að jafnvel óaðlaðandi skepnur geta náð dáleiðsluáhrifum með brosi sem býður upp á mikla möguleika fyrir t.d. stjórnmálamenn.

Þessi niðurstaða er talin geta haft mikil áhrif á stjórnmál, því að hún þýðir að jafnvel vinstri flokkar geta hæglega náð ótrúlegu fylgi þrátt fyrir þá hjátrú að sundrung meðal félagshyggjufólks sé ástæðan fyrir því hversu margir kjósendur eru fullir örvæntingar og reiðubúnir að kjósa hvaða bullukoll sem strýkur þeim um vangann og lofar að láta alla drauma rætast.

Rannsóknin leiðir í ljós hversu bros er mikilvægt og sömuleiðis almenn kurteisi í miklu magni. Í ljós kemur að sé formaður vinstri flokks nógu brosmildur til að smæla framan í heiminn frá morgni til kvölds án þess að gera nokkurn skapaðan hlut fyrir utan að brosa og segjast kurteislega vera á móti öllum sköpuðum hlutum sé raunhæfur möguleiki á að laða að sér fylgi jafnvel 25-30% kjósenda.

Jafnvel úlfar geta sett upp töfrandi bros.

Það er reyndar löngu þekkt staðreynd að 20% alls fólks er alltaf á móti öllu, þannig að vinstri flokkur sem hefur brosmildan formann og er alltaf á móti öllu og gætir þess vandlega að forðast að taka þátt í ríkisstjórnum eða einhverju sem gæti leitt til ábyrgðar og óvinsælda getur náð fylgishæðum sem félagshyggjufólk hefur ekki vogað sér að dreyma um síðan á dögum Leníns og Stalíns og félaga.

Á sama hátt og 20% kjósenda eru alltaf á móti öllu eru önnur 20% kjósenda ævinlega til í allt og endurspeglar hvortveggja afstaðan mannlega skynsemi og rökhuxun sem gott bros getur hæglega komið í staðinn fyrir.

Það er því góð regla að ganga brosandi til móts við daginn.

Móðir allra brosa!
Mona Lisa eða La Gioconda.
Þér gæti einnig líkað við
Ummæli
Hleð...