Nú er öldin önnur

Eitt af því sem hefur stórbatnað að undanförnu er hvað íslenskir gagnrýnendur hafa mildast frá því sem áður var, þegar þeir biðu eftir jólavertíðinni eins og grimmir og glorsoltnir úlfar og rifu og tættu niður meistaraverkin bæði á sviði kvikmynda og bóka af fullkomninni forherðingu bæði hugar og hjarta.

Nú er öldin önnur og hverri ræmu og hverju kveri er tekið opnum örmum og hafið upp til stjarnanna, fjagra stjarna að minnsta kosti og höfundarnir gjarna bornir saman við helstu snillinga mannsandans, en því varð til að mynda hinn vanmetni Sölvi Helgason/Sólon Islandus að fatta upp á sjálfur á sinni köldu tíð.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að enginn listamaður taki eða eigi að taka minnsta mark á gagnrýni nema hún sé góð og helst frábær, þannig að þetta er góð þróun og hvetjandi bæði fyrir listamenn og auglýsendur og gef íslenskum gagnrýnendum í dag hiklaust fimm stjörnur.

Þér gæti einnig líkað við
Ummæli
Hleð...