Sölumaður deyr

eða Múmían á Holtamel 7 eftir Þráinn Bertelsson

 

15. maí, 2006

Það var hvergi minnst á lík í auglýsingunni frá fasteignasölunni Bella Casa í Fréttablaðinu:

BELLA CASA FASTEIGNASALA kynnir: Tvær íbúðir og bílskúr á góðum stað í Vesturbænum.
1. Efri hæð: 73.1m² Stigahúsið er mjög rúmgott og bjart með gluggum á tvo vegu. Komið er inn í hol, þar er fataskápur og er gegnt í aðrar vistarverur úr því. Á hæðinn er stórt hjónaherbergi með góðu skápa plássi og dúklögðu gólfi og snýr það að bakgarði. Við hlið hjónaherbergis er snyrting, flísalögð með baðkeri / sturtu, ljósri innréttingu og glugga. Stofurnar eru tvær og með stórum gluggum er snúa að fram garði og er teppi á gólfi, auðvelt er að nýta aðra stofuna sem svefnherbergi. Í eldhúsinu er viðar innrétting og borðkrókur. Að auki er sameiginlegt þvottahús í kjallara og sér geymsla. Möguleiki á að nýta risið sem rúmgóða geymslu.
2. Kjallari: Góð 55.8m² 3ja herbergja íbúð. Holið er parketlagt. Tvö svefnherbergi eru í íbúðinni bæði með parketlögðu gólfi. Stofan er rúmgóð og snýr að framgarði. Eldhúsið er með fallegri ljósri innréttingu með góðu skápaplássi.
Baðherbergið er með baðkeri og er gluggi á því.
3. Bílskúr: Bílskúrinn er 25,9 m² steyptur og þarfnast smávægilegs viðhalds á þaki.

Þetta er kjörið tækifæri til að fjárfesta í eign sem býður upp mikla notkunarmöguleika.
Góð eign í fallegu grónu hverfi.

Bella Casa Fasteignasala sími 552 1500.
Eða 867 6128 utan sk
Frekari upplýsingar

Verð: 38 milljónir.

 

24. maí 2006

Þau Gyða Mjöll og Birkir Hrannar keyptu þessa eign (parhús á Holtamel) á 36,4 milljónir. Lögðu fram tilboð upp á 34 milljónir sem var hafnað, en tveimur dögum síðar afhenti fasteignasalinn þeim gagntilboð sem undirritað var af lögfræðingi seljenda og sagði að þau hefðu tólf tíma frest til að ganga að tilboðinu eða hafna því.
Þau vöktu fram eftir nóttu og um morguninn gengu þau að tilboðinu.
Kaupsamningurinn var undirritaður að morgni 24. maí og lögfræðingur seljenda óskaði þeim til hamingju um leið og hann afhenti þeim lyklana.
„Við erum að borga 235 þúsund fyrir fermetrann,” sagði Gyða Mjöll sem hafði verið í fyrsta útskriftarhópi viðskiptafræðinga nýja Háskólans á Bifröst. „Það er dáldið mikið.”
„Ég get gert þetta í fínt stand fyrir innan við tvær milljónir og þá erum við með þrjár fínar íbúðir í útleigu,” sagði Birkir.
„Greiðslubyrðin af 36,4 milljónum getur orðið svona 170 þúsund á mánuði.”
„En húsnæðislánið var ekki nema 19 milljónir.”
„Við þurfum auðvitað líka að gera ráð fyrir að fá okkar eigið fjármagn til baka með vöxtum,” sagði Gyða.
„Já, auðvitað,” sagði Birkir Hrannar þótt hann væri ekki alveg klár á því af hverju þau þyrftu að standa í skilum með vexti og afborganir af sínum eigin peningum. Hann skildi ekki þessar kúnstir með að færa peninga úr einum vasa sínum í annan.
„Haf þú ekki áhyggjur af því,” sagði Gyða. „Ég sé um fjármálin. Nú er bara að finna góða leigjendur.”
„Það skal ekki taka meira en mánuð að koma þessu í stand,” sagði Birkir. „Við fáum örugglega 70 þúsund á mánuði fyrir bílskúrinn. Það er ekki neitt fyrir flotta stúdíóíbúð á góðum stað með sérinngangi. Ég reikna ekki með nema svo 80 þúsund fyrir kjallarann, en þessi íbúð hérna verður alger perla, 100 þúsund kall að minnsta kosti og jafnvel 110.”
„Já, þú meinar,” sagði Gyða.
„Það eru alveg 200 þúsund,” sagði Birkir.
„250,” sagði Gyða. „Fyrir skatt.”
„Við leigjum þetta bara svart,” sagði Birkir. „Að minnsta kosti kjallarann og bílskúrinn. Enginn vandi að fá svoleiðis leigjendur.”
„Svo er spurning hvort það væri hægt að fá að lyfta þakinu og bæta einni hæð við,” sagði Gyða. „Það gæti verið fín íbúð, þótt hún væri dáldið undir súð.”
„Ég held það mundi ekki borga sig,” sagði Birkir. „Maður á að hugsa um eitthvað sem þarf tiltölulega lítið að gera við. Nýjar hurðir, ný eldhúsinnrétting, smá lagnavinna, flísar á baðið. Skipta um einhverja glugga. Ódýr gólfefni. Þá lítur þetta út eins og nýtt. Að byggja ofan á er bara vesen.”
„Ókei,” sagði Gyða. „En það er ágætt að eiga þann möguleika upp á framtíðina.”
Þau voru bæði hagsýn. Gyða Mjöll vann hjá KB-banka og Birkir sem var trésmiður vann hjá GR-verktökum. Framtíðaráformin voru að eignast fjármagn með því að kaupa smátt og smátt nokkrar íbúðir, leigja þær út, og nota hagnaðinn og sparifé til að eignast fleiri íbúðir. Byggja upp kapítal, smátt og smátt, og svo var draumurinn að nota fasteignirnar sem stökkpall inn í ríkidæmi.
„Við hefðum átt að kaupa freyðivín eða eitthvað til að halda upp á þetta,” sagði Birkir.
„Freyðivín?” sagði Gyða. „Við höfum nóg annað við peningana að gera. Eftir tuttugu ár frá þessum degi skálum við í alvöru kampavíni.”
Birki hlýnaði innanbrjósts. Þessi kona vissi hvað hún söng. Og þetta var konan hans.
Hann dró hana til sín og tók utan um hana. Hún kipptist við þegar hann stakk hendinni upp undir pilsið.
„Ertu frá þér? Það sést beint inn á okkur,” sagði hún. „Það eru engar gardínur.”
„Hver heldurðu að sé að glápa hér inn?” umlaði hann.
Án þess að losa faðmlögin mjökuðu þau sér eins og í klunnalegum dansi fram í forstofuna.
„Eigum við ekki að bíða þangað til við komum heim?” hvíslaði Gyða.
Nú var það Birkir sem réð ferðinni.
„Nei,” sagði hann. „Gerum það núna. Í staðinn fyrir freyðivín.”
„Gólfið er skítugt,” sagði Gyða.
„Vert þú þá bara ofan á,” sagði Birkir.
Og Gyða lét sannfærast.
Á meðan Gyða fékk fullnægingu fékk Birkir hugmynd.

3. febrúar 1949

Gjaldkerinn taldi peningana hægt fram á borðið eins og hann vildi kveðja hvern einasta seðil persónulega.
„Þetta er fyrsti sölutúrinn þinn,” sagði hann. „Þú verður að vera passasamur með kvittanir. Við stemmum sjóðinn af upp á krónu þegar þú kemur aftur. Þetta er fyrir fæði og gistingu og símskeytakostnaði þó að menn eigi ekki alltaf að vera að senda skeyti.”
Enok horfði brosandi á þetta uppþornaða gamalmenni og spurði:
„En hvað með risnu?”
Heh! Sá gamli reyndi að kreista fram bros um leið og hann rétti Enok ferðasjóðinn með augljósum söknuði.
Sendiferðabílstjórinn var búinn að stafla sýnishornatöskunum og sendingunum til Ísafjarðar, Skagastrandar, Akureyrar og Húsavíkur inn í bílinn.
„Jæja, við skulum drífa okkur af stað,” sagði Enok og varð eiginlega undrandi þegar hann heyrði sjálfan sig bæta við: „En fyrst þurfum við að renna við í ríkinu. Ég var búinn að lofa að kaupa flösku fyrir kunningja minn á Ísafirði.”
„Er ekki ríki á Ísafirði?” spurði bílstjórinn. „Við erum orðnir dáldið seinir.”
„Tekur bara augnablik,” sagði Enok. „Ég get ekki svikið manninn úr því ég var búinn að lofa þessu.”
„Hann er aldeilis þyrstur þessi vinur þinn,” sagði bílstjórinn þegar Enok kom með kassa í fanginu og hljóp við fót. „Þetta er stór flaska og óvenjuleg í laginu.”
„Ætlarðu að láta mig missa af skipinu, drengur?” spurði Enok og hló að fyndni bílstjórans. Það lá vel á honum. Hann hafði keypt sex flöskur af hvannarótarbrennivíni og látið sex flöskur af Hunt’s portvíni fylgja með til að fylla upp í kassann.

Strandferðaskipið átti samkvæmt áætlun að leggja úr höfn klukkan tólf á hádegi, en þar sem það hafði enn þá ekki gerst í 23 ára sögu útgerðarinnar að áætlun stæðist var enginn asi á neinum.
Þeir tóku kassa og töskur úr bílnum við hliðina á trossu sem lá á kæjanum. Á þilfarinu var engan mann að sjá og ekkert sem benti til þess að skipið væri að búast til brottfarar.
„Farð þú bara um borð og láttu vita af þér,” sagði bílstjórinn. „Ég skal svo sjá um að þeir taki draslið. Þú þarft bara að kvitta á nótuna og svo getur þú farið og lagt þig til kojs eins og fínn maður.”
Enok beið meðan bílstjórinn fyllti út nótuna og skrifaði svo nafnið sitt með útflúri. Enok Betúelsson. Hann var hissa þegar hann sá hvað túrinn átti að kosta. En lét ekki á neinu bera. Ekki voru þetta hans peningar.
„Er alltaf nóg að gera í þessu?” spurði hann þegar hann kvaddi bílstjórann með handabandi.
„Þessu hverju?”
„Akstrinum,” sagði Enok.
„Já, elskan mín,” sagði bílstjórinn. „Maður má þakka fyrir að komast heim yfir blánóttina.”
Það var greinilega meira vit í að keyra sendibíl og raka saman fé heldur en velkjast kringum landið og selja kremkex á krummuskuðum. Sumir hafa heppnina með sér.

Mikil hlátrasköll bentu til þess að áhöfnin væri í matsalnum. Hláturinn hljóðnaði þegar Enok birtist í dyrunum eins og tröll, tveir metrar og fjórir sentimetrar á hæð og fyllti upp í dyrnar.
Hann hélt á pappakassanum í fanginu og hafði skjalatöskuna sína undir handleggnum.
Áhöfnin var að borða hádegismat. Úr borðsalnum var opið inn í annað herbergi. Það hlaut að vera yfirmannamessinn. Enok fann matarilm gegnum olíustybbuna. Hann var svangur. Skipstjórinn hlaut að bjóða honum að borða með sér.
Áhöfnin góndi á hann eins og sjórekið lík og Enok hrökk í kút þegar einhver sem stóð fyrir aftan hann spurði með þjósti:
„Hvað ert þú að gera hérna?”
Það var lágvaxinn maður í blárri duggarapeysu sem spurði. Hann var með sígarettu milli varanna og pírði augun á þessa boðflennu.
„Ég á far með skipinu,” sagði Enok. „Allan hringinn. Enok Betúelsson frá Kexverksmiðjunni Reykjakex.”
„Og af hverju ert þú kominn,” sagði maðurinn án þess að segja nein deili á sér. „Skipið fer ekki fyrr en klukkan fjögur í fyrsta lagi. Við erum að bíða eftir einhverri prentvél sem á að fara til Akureyrar og enginn veit hvar er niðurkomin.”
„Af hverju voru farþegarnir ekki látnir vita af seinkuninni?” spurði Enok.
„Farþegarnir?” spurði maðurinn. „Þú ert eini farþeginn svo að það hefur ekki þótt taka því, enda er þetta ekki skemmtiferðaskip. En ég skal vísa þér á káetuna svo að þú getir haft þína hentisemi.”
Svo snérist maðurinn á hæli og lagði af stað án þess að gá að því hvort farþeginn fylgdi á eftir.
„Enok,” sagði maðurinn. „Ekki er það íslenskt nafn.”
„Ójú,” sagði Enok. „Ég er ættaður að vestan. Nafnið er úr biblíunni.
„Biblían er ekki íslensk,” sagði leiðsögumaðurinn. „Það hélt ég nú að allir vissu. Hérna er káetan og nóg er plássið.”
Það voru þrjár kojur í káetunni og eitt borð áfast við vegginn. Enok setti kassann varlega frá sér á borðið og þegar hann snéri sér við til að halda áfram að tala við leiðsögumann sinn á bláu duggarapeysunni var hann horfinn og skildi eftir aðeins eftir sig gráan tóbaksreyk sem liðaðist um í skímu frá kýrauganu í kveðjuskyni.
Það var breyskjuhiti þarna inni. Enok fór úr frakkanum og hengdi hann á snaga við höfðalagið á kojunum. Skjalatöskuna sem innihélt handskrifað blað með nöfnum á verslunum og kvittanahefti og kalkipappír lagði hann frá sér við hliðina á kassanum.
Hann var að hugsa um hvort hann ætti að leggja sig í neðstu kojuna og hvíla sig augnablik þegar hann varð þess var að hann var kominn með flösku af hvannarót í hendurnar. Hann mundi ekki eftir því að hafa opnað kassann.
Hann ákvað að stinga flöskunni í kassann aftur og skrúfaði lokið af henni og fékk sér sopa.

24. maí, 2006

Hugmyndin var eitursnjöll og Birkir var sannfærður um að það þyrfti ekki að kosta mikið að framkvæma hana.
Þar sem hann lá á bakinu í forstofunni og horfði upp í loftið yfir Gyðu datt honum í hug að það gæti verið snjallræði að gefa stofunni nútímalegra yfirbragð með því að fjarlægja falska loftið og klæða með gifsplötum neðan á þakið og leyfa sperrunum að njóta sín, ef þær væru í lagi.
Svo gaf hann sig algleyminu á vald, en gleymdi samt ekki hugmyndinni.
„Á ég að trúa því að þú hafir verið að hugsa um þetta á meðan,” sagði Gyða þegar Birkir sagði henni frá hugmyndinni.
„Nei, ekki á meðan,” sagði Birkir, „en strax á eftir. Ég hleyp út í bíl og næ í kúbein og tröppu.”

„Það hefur greinilega engum dottið í hug að nýta háaloftið,” sagði Birkir Hrannar og beitti kúbeininu til að losa listana sem höfðu verið negldir meðfram hleranum í loftsgatinu. „Og svo hafa listarnir verið settir til þétta og koma í veg fyrir trekk.”
„Dragsúg,” sagði Gyða.
„Já, nákvæmlega.”
Þegar Birkir var búinn að losa um hlerann kom í ljós að hann var laus og lék ekki á hjörum svo að Birkir ýtti honum varlega inn á skörina.
Svo rak hann höfuðið upp um loftsgatið.
„Ég sé ekki glóru. Það er svartamyrkur hérna.”
„Við hverju bjóstu?” sagði Gyða.
„Það er ferlegt óloft hérna.”
„Úff,” sagði Gyða. „Þetta er bara vitleysa. Blessaður settu hlerann á sinn stað aftur.”
„Bíddu aðeins,” sagði Birkir. „Ég ætla aðeins að tékka á þessu. Lyktin fer strax. Það getur verið að mýs eða rottur hafi drepist hérna og lyktin sé af þeim. Það er ekkert mál.”
„Mýs eða rottur?” sagði Gyða. „Þá er ég farin.”
„Bíddu manneskja,” sagði Birkir og vóg sig upp á skörina. „Þú verður að halda við tröppuna svo að ég hálsbrjóti mig ekki þegar ég kem niður.”
„Hvað heldurðu að þú sjáir í þessu myrkri?” sagði Gyða. „Gerðu það. Komdu niður.”
„Bara augnablik,” sagði Birkir. „Ég vona að ég sé með kveikjarann.”
„Elsku, farðu varlega með eld þarna uppi,” sagði Gyða. „Við vorum að kaupa húsið og erum ekkert farin að athuga með tryggingarnar.”
Hljóðið sem kom úr barka Birkis var ekki öskur heldur hrygla. Sú sjón sem blasti við honum í ljósinu frá Bic-kveikjaranum var eins og öllum hryllingsmyndum sem hann hafði séð um dagana hefði verið þjappað saman í eitt andartak. Andartak sem átti aldrei eftir að líða honum úr minni.
Það var lán í óláni að trappan skyldi vera fyrir neðan loftsgatið og taka af honum fallið að einhverju leyti, þannig að hann slapp með axlarbrot og heilahristing, því að þetta hefði getað farið miklu ver.

24. maí, 2006

„Svo að í staðinn fyrir að kryfja líkið ákvaðstu að kryfja málið?” spurði Víkingur.
„Ég veit ekki hvort það er hægt að kalla múmíu lík,” sagði Þórhildur. „Ég kann að kryfja lík en þegar kemur að múmíum er ég alveg reynslulaus. Múmíur eru nefnilega ekki á hverju strái.”
Sumum innan lögreglunnar þótti það ekki góð latína að Þórhildur Magnúsdóttir réttarlæknir og Víkingur Gunnarsson yfirlögregluþjónnn skyldu vera hjón og pískruðu um að nauðsyn þess að skilja milli atvinnu og einkalífs – án þess þó að vita nákvæmlega hvað þeir áttu við en vildu samt koma í veg fyrir.
Þórhildur og Víkingur sáu hins vegar ekki þessa nauðsyn heldur litu svo á að gagnkvæm þekking á störfum hvors annars leiddi til skilnings og umburðarlyndis sem einkennir góð hjónabönd.
Þrátt fyrir þetta var skilningur og umburðarlyndi Víkings í lágmarki þegar hann kom heim úr vinnunni og sá að konan sem átti að vera að kryfja líkið, múmíuna sem allir landsmenn töluðu um, hafði komið sér makindalega fyrir í freyðibaði með rauðvínsglas og var að lesa norskan reyfara sem hét „Við enda hringsins”.
„Þetta er miklu betri bók heldur en „Da Vinci lykilinn,” sagði Þórhildur. „Þú verður eiginlega að lesa hana þegar ég er búin með hana.”
„Hvað áttu við með að þú sért ekki byrjuð á krufningunni?” spurði Víkingur. „Þú gerir þér væntanlega ljóst að það er ekki bara lögreglan sem bíður eftir upplýsingum?”
„Ég skil ekki hvaða læti þetta eru,” sagði Þórhildur. „Manngreyið hefur hvílt í friði áratugum saman og nú læturðu eins og þú sért að búast við því að ég lífgi hann við og sendi hann til þín að gefa skýrslu. Það er ekkert grín að kryfja múmíur. Múmíur eru sjaldgæf fyrirbæri svo að krufningarlæknir sem dettur niður á góða múmíu verður heimsfrægur í faginu og er boðið út um allar jarðir að halda fyrirlestra á læknaráðstefnum. Það er ekki nema rúm vika síðan ég fékk tölvupóst frá kollega mínum í Cincinatti í Bandaríkjunum, hann er bókaður næstu tvö ár að minnsta kosti að segja frá múmíu sem fannst þar í janúar og hafði setið fyrir framan sjónvarpið sitt í tvö og hálft ár. Það eru allir voða spenntir fyrir þessu. Reyndar kom svo í ljós að þetta var áttræð kona sem var búinn að semja við húsvörðinn í blokkinn að úða sig vikulega eftir andlátið með skordýraeitri. Hún bannaði honum að segja frá því að hún væri dáin af því að hún var sannfærð um að hún ætti eftir að lifna við aftur og þá væri verra að vera neðanjarðar.”
„Af hverju læturðu svona?” spurði Víkingur. „Þú veist að okkur liggur á öllum upplýsingum.”
„Hvað viltu vita?”
„Hver er þetta? Hvenær dó hann? Hver var dánarorsökin?”
„Því er fljótsvarað,” sagði Þórhildur. „Þetta er Enok Betúelsson, sölumaður hjá Kexverksmiðjunni Reykjakexi. Hann dó að líkindum 3. febrúar árið 1949 og dánarorsökin var hnífstunga undir vinstra herðablaði, þótt hingað til hafi það verið haft fyrir satt að hann hafi drukknað þegar hann tók fyrir borð af strandferðaskipinu Geysi á leið frá Reykjavík til Ísafjarðar.”
„Hvernig veistu þetta?”
„Ég hringdi bara í hann Erlend sem er sérfræðingur í óupplýstum mannshvörfum og spurði hann um Enok Betúelsson og það stóð ekki á svari,” sagði Þórhildur og brosti blíðlega. „Vertu nú huggulegur og náðu í rauðvínsflöskuna sem stendur á eldhúsborðinu. Ég tími ekki að fara upp úr baðinu alveg strax.”
Víkingur stundi og sótti flöskuna.
„Úr því að þú ert svona almennilegur,” sagði Þórhildur, „skal ég bæta því við að það lítur út fyrir að Enok okkar hafi ákveðið að skjótast heim til sín eftir að hann var mættur um borð. Ég veit ekki nákvæmlega hvað gerðist þegar hann kom heim, en mér þykir ekki ólíklegt að hann hafi komið að Jóhönnu eiginkonu sinni og húseigandanum Sigurði Jónssyni sem bjó í kjallaranum.
Svo veit ég ekki hvað gerðist, nema hvað syrgjandi ekkjan tekur saman við Sigurð húseiganda og býr með honum þar til Sigurður deyr árið 1991.
Kannski hefur Enok komið elskendunum á óvart og Sigurður hefur orðið honum að bana í nauðvörn.
En það er heldur ekki útilokað að þetta hafi verið skipulagður glæpur. Að Jóhanna og Sigurður hafi lagt á ráðin um þetta og með einhverju móti komið boðum til Enoks að líta við heima áður en skipið legði af stað og svo orðið honum að bana að yfirlögðu ráði.
Hvað veit ég?
Þó er það athyglisvert að þau Jóhanna og Sigurður sem bjuggu alla tíð síðan í íbúðinni þar sem morðið var framið eiga tvo syni, Einar og Eirík. Eldri sonurinn, Einar, er fæddur í ágúst 1949 svo að það kemur vel til greina að DNA-rannsókn leiði í ljós að hann sé Enoksson en ekki Sigurðsson. Ef það skiptir þá einhverju máli úr því sem komið er.”
„Ætlarðu ekki að klára söguna?” sagði Víkingur. „Þú hefur ekkert minnst á hvað varð um Jóhönnu. Er hún lifandi enn þá?”
„Svarið við því er bæði já og nei,” sagði Þórhildur. „Og ég er ekki að grínast. Hún er algjörlega út úr heiminum þótt hún tilheyri honum enn, svona formlega séð.”
„Hvað áttu við?” spurði Víkingur.
„Elliglöp, seníl dementía. Það eru ekki nema fjórir mánuðir síðan synirnir fengu pláss fyrir hana á hjúkrunarheimili. Fram að þeim tíma urðu þeir að skiptast á um að vera hjá henni svo að hún færi sér ekki að voða. Hún er fædd 1931 og er orðin 75 ára gömul. Enok var eldri en hún, 26 ára þegar hann dó. Sigurður var eldri. Hann var fæddur 1912.”
Víkingur þagði.
„Ætlarðu ekki að spyrja mig hvernig ég viti þetta?” sagði Þórhildur.
„Nei, ég ætla bara að bíða eftir því að þú segir mér það.”
„Hann lá á grúfu og undir líkinu var skjalataska. Í töskunni var flaska undan hvannarótarbrennivíni. Tóm. Og einhverjir myglaðir pappírar. En nafnið hans var skrifað með tússi innan í skjalatöskuna. Enok. Það er ekki algengt nafn. Afgangurinn var auðveldur. Bara smástund á netinu og nokkur símtöl. Hvað nú?”
„Hvað nú?” sagði Víkingur. „Hvað áttu við?”
„Á að segja frá þessu opinberlega? Á að segja manni á sextugsaldri að hann sé rangfeðraður og faðir hans hafi verið stjúpfaðir hans og sennilega banamaður hins raunverulega föður og að móðirin hafi hylmt yfir með honum? Á að segja hinum bróðurnum að faðir hans hafi verið morðingi og móðir hans meðsek? Er ekki auðséð að oft má satt kyrrt liggja.”
„Sannleikurinn er sem betur fer ekki á mínu valdi,” sagði Víkingur. „Ég get ekki stjórnað því hvort hann liggur kyrr eða bregður sér á kreik.”
„Þetta er eitthvað svo sorglegt,” sagði Þórhildur. „Hugsaðu þér hjónabandið hjá Sigurði og Jóhönnu. Kannski var ekkert á milli þeirra nema stundarblossi – og svo þessi glæpur. Og þau byggðu heilt hjónaband á glæp. Heilt líf byggt á glæp og lygi.”
„Verðum við ekki að trúa því um sannleikann að það sé betra að hann komi í ljós seint en aldrei?” sagði Víkingur.
„Veistu,” sagði Þórhildur. „Ég stórefast um það. Alla réttarlækna í veröldinni dreymir um að rekast á merkilega múmíu og nú þegar forsjónin sendir mér þetta fína eintak vildi ég óska að ég hefði heyrt þessa sögu í fyrirlestri hjá ókunnum manni og setið úti í sal og öfundað hann af frægðinni.”

24. maí, 2006

Á hjúkrunarheimilinu Sólborg hlíð lá Jóhanna með opin augu. Það mátti einu gilda hvort hún vakti eða svaf; það var varla hægt tala um að hún væri með meðvitund þótt hún ætti að heita vakandi.
Hún lá í myrkrinu.
Engar minningar til að halda vöku fyrir henni.
Engar minningar til að sofna frá.
Engar minningar.
Hvorki ljós né myrkur.
Tóm.
Eins og hún hefði aldrei verið til.
Eins og 3. febrúar árið 1949 hefði aldrei komið og aldrei liðið hjá.

3. febrúar, 1949

Þegar Enok var farinn reyndi hún að sofna aftur, en henni leið einkennilega og hún gat ekki fest blund. Hún var að hugsa um eitthvað en gat ekki hent reiður á hugsunum sínum. Hún var með hjartslátt.
„Þetta er sennilega það sem er kallað að vera milli vonar og ótta,” hugsaði hún. Enok var búinn að lofa því að smakka ekki dropa í túrnum. Hún var að vona að hann gæti staðið við það, en óttinn yfirskyggði vonina, óttinn við að eitthvað yrði til þess að hann stæði ekki við loforðið, óttinn við að hann færi að drekka.
„Auðvitað fer hann að drekka,” hvíslaði efinn. „Auðvitað fer hann að drekka. Dettur þér það í hug í alvörunni að hann komist heila hringferð kringum landið án þess að detta í það? Finnst þér ekki líklegra að hann komi aftur úr ferðinni rifinn og hruflaður og búinn að týna töskunum með sýnishornunum og segist vera búinn að segja upp hjá þessu skítafyrirtæki og hann hafi verið snuðaður um kaupið og hann hafi meitt sig við að stökkva um borð í skipið til að verða ekki strandaglópur og hann hafi ekki drukkið dropa í allri ferðinni nema einn sjúss hjá skipstjóranum í kveðjuskyni.
„Og svo verður hann brjálaður þegar ég segist ekki trúa helvítis lyginni í honum,” hugsaði hún.
„Hann er brjálaður,” hvíslaði efinn. „Hann er fyrir löngu búinn að drekka frá sér vitið. Hann veit ekkert hvað hann gerir. Er hann ekki búinn að lemja þig nóg?”
„Það kemur aldrei fyrir aftur. Hann elskar mig og núna ætlar hann að standa sig. Fyrir mig og barnið.”
„Enok elskar ekki neitt nema brennivín,” hélt efinn áfram að hvísla án miskunnar. „Og hann heldur dauðahaldi í þig eins og drukknandi maður. Afbrýðisemin er ekki ást heldur örvænting. Hann heldur þér í gíslingu. Ætlarðu að láta hann halda þér í gíslingu alla ævi.”
„Hann þarf á mér að halda.”
„Notaðu tækifærið og forðaðu þér áður en hann kemur aftur,” hvíslaði efinn. „Það er ekki víst að svona tækifæri komi aftur. Hugsaðu um þig og barnið.”

Hún hrökk upp við einhvern umgang og leit á klukkuna á náttborðinu. Klukkan var að verða hálftvö. Gat hún hafa sofið svona lengi?
Nú heyrði hún greinilega að það var gengið um frammi. Enok var farinn. Hver gat þetta verið? Vonandi ekki Sigurður húseigandi, þessi litli kútur sem horfði á hana með gírugum glyrnunum þegar þau hittust. Það fór hrollur um hana.
„Hver er frammi?” kallaði hún. „Hver er þar?”
Enok hratt upp hurðinni svo að hún slóst í vegginn.
Hann stóð á þröskuldinum og riðaði. Hún sá á augabragði að hann var drukkinn.
„Mig grunaði að þú ættir von á einhverjum,” sagði hann þvoglumæltur. „Það má ekki af þér líta.”
„Ég trúi þessu ekki,” argaði hún. „Ertu kominn fullur heim?”
„Já, ég er sko kominn heim,” sagði hann og gekk í áttina að rúminu.
„Blindfullur, ógeðið þitt.”
„Ég er nú ekki viss um hvort okkar er meira ógeð,” drafaði í honum og varð of seinn að bera fyrir sig hendurnar þegar Jóhanna stökk fram úr rúminu og greip um leið vekjaraklukkuna af náttborðinu og grýtti henni í áttina að honum.
Hún reyndi að komast fram hjá honum. Út. En hann náði taki á handleggnum á henni og snéri hana niður.
Hún argaði af öllum kröftum og sparkaði náttborðinu um koll.
Enok greip í hárið á henni og tók að draga hana fram í forstofu.

Það var hljóðbært í húsinu. Sigurður í kjallaranum grúfði andlitið í höndum sér og reyndi af öllu afli að heyra ekki hávaðann.
Hann hafði séð þegar Enok kom heim og hann hafði grunað hvað væri í vændum.
Nú kom sér illa að vera of nískur til að hafa fengið sér síma.
Öskrin og óhljóðin að ofan héldu áfram. Hvert hljóð nísti gegnum merg og bein.
Loks gat hann ekki setið lengur undir þessu. Hann rauk fram í eldhús og greip brauðhnífinn af eldhúsbekknum og hljóp svo út á gang og upp stigann.

Enok hafði skilið dyrnar eftir opnar og það færðist bros yfir andlit hans þegar hann sá að Sigurður stóð í dyragættinni.
„Nei, sjáðu hver er loksins kominn,” sagði hann.
Jóhanna lá í fósturstellingu á gólfinu og reyndi að skýla andlitinu með handleggjunum. Enok greip um hökuna á henni og neyddi hana til að líta í átt að dyrunum.
„Nei, sjáðu hver er kominn,” sagði hann. „Friðillinn þinn, riðillinn þinn.”
Svo sleppti hann takinu á Jóhönnu og reis upp og snéri sér að Sigurði.
„Komdu inn, vinur. Gerðu svo vel. Viltu ekki vera bara eins og heima hjá þér?”
Sigurður stóð grafkyrr í dyrunum, örmagna af skelfingu og gat hvorki hreyft legg né lið.
„Hvað ertu að gera með þennan hníf, vinur?” sagði Enok. „Þú verður að passa þig að skera þig ekki.”
Sigurður stóð eins og dáleiddur, en þegar Enok tók skref í áttina til hans, kipptist hann við og missti hnífinn sem datt í gólfið með glamri. Hann var sannfærður um að síðasta stund sín væri runnin upp.
Enok virtist vera hjartanlega sammála þeirri skoðun og þreif um kverkar Sigurði með stórri krumlu og kreisti um leið og hann lyfti honum upp og slengdi honum síðan niður á gólfið inni í forstofunni.
Sigurður lá á bakinu og reyndi að fikra sig eins og padda undan risanum sem gnæfði yfir hann og beið eftir því að kreista úr honum líftóruna.
Enok gnæfði yfir og gerði sig líklegan til að sparka í hann og Sigurður hnipraði sig saman. En sparkið sem Sigurður átti von á kom ekki og svo hrundi húsið ofan á hann og hann missti meðvitund í eina sekúndu eða fimm mínútur.
Hann var lifandi og óbrotinn og veggurinn sem hafði hrunið yfir hann var ekki veggur heldur var það kvalari hans sem lá líflaus ofan á fótum hans. Þegar Sigurður reis upp við olnboga sá hann að skeftið á búrhnífnum stóð út úr bakinu á Enok.
Yfir þeim stóð Jóhanna og virti fyrir sér blóðugar hendur sínar.

Þegar Sigurður var staðinn á fætur reyndi hann að taka utan um Jóhönnu en hún færðist undan eins og sært dýr.
„Þú verður að hringja í sjúkrabíl,” sagði hún. „Sjúkrabíl, sjúkrabíl.”
„Ég hef því miður ekki komið því í verk enn þá að verða mér úti um síma,” sagði Sigurður.

Hjónaband þeirra átti eftir að standa í 42 ár og allan þann tíma kom Sigurður því aldrei í verk að fá sér síma.
Eftir því sem tíminn leið vandist Jóhanna eiginmanni sínum. Eitt var þó í fari hans sem fór alltaf jafn mikið í taugarnar á honum. Það var sá kækur hans þegar honum þótti sér vera nóg boðið að ranghvolfa í sér augunum og blimskakka þeim fánalega upp í loft.
Eins og til að minna hana á hvað þau ættu sameiginlega yfir höfði sér.

Þér gæti einnig líkað við
Ummæli
Hleð...