Þegar tíminn nemur staðar

Af fegurð veraldar og risaeðlum við Hvaleyrarvatn

Stundum er fegurðin svo yfirþyrmandi að manni finnst að veröldin hljóti að hafa staðnæmst til að kasta mæðinni og tíminn standi kyrr á meðan og bryðji mélin. Þannig var það í morgun hérna við Vatnið góða.

Kyrrð þessa augnabliks fullkominnar hamingju bergmálar svo í sálinni langt fram á kvöld og virkar á allar frumur líkamans eins og dúndurskammtur af chiafræjum með þeyttum kínalífselexír útá.

Vísindahundurinn Theobald lét þó hvorki hamingju né kyrrð trufla sig víð rannsóknarstörf og fann jarðneskar leifar sem virðast vera af smávaxinni risaeðlu. Að hans áliti er beinagrindin af þeirri voðalegu skepnu „Quetzalcoatlus northropi“, en ég tel þó líklegra að hér sé um að ræða „Pterodactylus antiquus“ sem ekki hefur náð kynþroskaaldri.

Ekki hefur ennþá verið úr því skorið hvort hér sé um að ræða óorðinn steingerving af „Pterodactylus antiquus “ ellegar hinum voðalega „Quetzalcoatlus northropi“.

Ef aðstæður reynast hagstæðar og ekki verður hróflað við þessum fundi gæti beinagrindin orðið að steingervingi á sosum tíuþúsund árum og vonandi endað í höndunum á nákvæmari vísindamönnum en okkur Theobald.

Þér gæti einnig líkað við
Ummæli
Hleð...