Velkomin CHEZ MOI (á heimasíðuna)!

THRAINN.IS

Velkomin(n).
Nokkur orð um vefsetrið thrainn.is eða thrainnbertelsson.is:
Þessi vefsíða eða vefsetur (sem ég kalla í huganum upp á frönsku CHEZ MOI eða HEIMA) er tilraun mín til að kveðast á við nútíma sem er orðinn hraðskreiðari en ég og vinnumarkaðurinn hefur spýtt mér út úr sér, meira að segja fjölmiðlar hafa ekki lengur lyst á að birta það sem ég skrifa og verða þeir þó seint sakaðir um að gera ósanngjarnar kröfur um gæði efnis né heldur að heimta sífellt meiri þroska, íslenskukunnáttu og ritfærni af starfsmönnum sínum. Þetta er nútímalegur fámiðill eða jafnvel örmiðill en eins og allir miðlar alltaf og alstaðar á öllum tímum stjórnast tilvera hans af tjáningarþörf eigandans – sem í þessu tilviki er ÉG ef mig skyldi kalla.
Enn sem komið er kann ég bara einföldustu atriði í sambandi við að halda úti og ritstýra svo vefsíðu. Vonandi lærist það með tímanum, eða þá ég gefst upp á öllu saman eða allir gefast upp á mér og þá verður sjálfhætt. Framtíðin er óráðin gáta – í dag eins og hingað til.
Þetta vefsetur er miðill til að birta það sem mig langar að tjá, í máli og myndum. Vonandi verður það einhverjum til skemmtunar, afþreyingjar og jafnvel umhugsunar.
Þetta er ekki fræðasetur né heldur samskiptamiðill í þeim skilningi að þeir sem hingað komi geti þrasað eða rökrætt, hins vegar er hægt að koma skilaboðum eða athugasemdum til ritstjórans sem ber ábyrgð á öllu saman og er vís til að birta það sem honum finnst vel til fundið.
Hingað eru allir velkomnir og hér gilda engar reglur aðrar en almennar kurteisisreglur samkvæmt okkar skilningi á slíku og sjálfsagt er að taka fram að þetta er ekki hugsað sem staður fyrir fólk sem hefur orðið innlyksa og fast í netinu til að fá útrás fyrir heift og hatur í garð einstaklinga, hópa eða trúarbragða eða skoðana, og þaðan af síður fyrir illgirni og ljótar hugsanir sem best er að hver og einn reyni að koma fyrir kattarnef í myrkum afdrepum eigin hugar til að forðast að smita aðra.

Axel Jón
Embla Örk
Stefán Ólafsson

Vini mínum Axel Jóni Fjeldsted sem er grafískur hönnuður þakka ég fyrir að hanna og setja upp þetta vefsetur.

Frænku minni sem er ótrúlega listfeng manneskja og heitir Embla Örk Hölludóttir þakka ég fyrir að hafa kveikt hjá mér áhugann á því að halda úti eigin vefsetri, en hún hannaði tilraunavefsetur handa mér sem skólaverkefni og hlutir og hugmyndir þaðan eru hér á sveimi, meðal annars ótrúlega falleg teikning sem Embla gerði af undirrituðum.

Hérna er líka að finna magnaða ljósmynd af Arnarfelli í Þingvallasveit (sem er hinn fasti punktur í minni tilveru) eftir Stefán Ólafsson prófessor og ofurljósmyndara sem ég fékk leyfi hjá höfundi til að birta. Fyrrnefndur Axel Jón Fjeldsted verður vefstjóri hérna, það þýðir að ég kjaftaði hann inn á að reyna að kenna mér notkunarmöguleika þessa fámiðils og til að sjá um að hann drabbist ekki niður og sjúskist frá fyrsta degi heldur þroskist og taki framförum – eins og við vonandi öll.
Í staðinn fyrir kaffi og kleinur eða gallsúrt kassavín við opnunina birtist hér tiltölulega nýleg smásaga SÖLUMAÐUR DEYR eða MÚMÍAN Á HOLTAVEGI og þótt hún sé stutt þá inniheldur hún bæði glæpi, kynlíf og ofbeldi og er jafnframt ádeila á húsnæðismarkaðinn á Íslandi þar sem ungt fólk, jafnvel ungir og framfarasinnaðir alþingismenn stendur ráðalaust gagnvart því að koma sér upp þaki yfir höfuðið og verða að ylja sér við það sem hægt er að dánlóda frítt á internetinu en það er önnur saga og ljótari.

Sem sagt, veriði velkomin. Ég vona að þetta verði einhverjum fleirum en mér og vefstjóranum til gleði og afþreyingar. Eða eins og Kerlingin sagði: Komi þeir sem koma vilja, fari þeir sem fara vilja, mér og mínum að meinalausu.

Þér gæti einnig líkað við
Ummæli
Hleð...