Vonin blíð

Ég frétti af manni sem sagði að sig langaði til að kjósa Pírata en hann treysti sér ekki til að binda vonir við lítt reyndan flokk vegna þess að hann hefði orðið fyrir svo harkalegum vonbrigðum með Borgarahreyfinguna.

Auðvitað eru vonir eins og draumar og óskir, þær rætast ekki alltaf og þegar þær uppfyllast þá verður það yfirleitt með soldið öðrum hætti en maður hafði ímyndað sér.
Það er engin ástæða til að ganga í vonarbindindi út af vonbrigðum með að Borgarahreyfingunni skyldi ekki takast að gjörbreyta íslensku þjóðfélagi á svipstundu. Borgarahreyfingin með sín 7% atkvæða og 4 þingmenn var vegna smæðar sinnar og bernsku ekki beinlínis í aðstöðu til þess eftir kosningarnar 2009 að hrifsa til sín mikið af völdum í landinu – ekki síst vegna þess að „umbótaflokkarnir“ sem mynduðu ríkisstjórn virtust hafa fullkomið ógeð á nýju stjórnmálaafli á vinstrivæng sem þeir litu á sem sína prívat landhelgi.

Margvíslegir barnasjúkdómar herja á nýja stjórnmálaflokka og Borgarahreyfingin dó í vöggu sinni. Hins vegar voru ýmsir nothæfir partar úr Borgarahreyfingunni orðið að því útsæði sem flokkur Pírata er sprottin upp af. Aðrir líkamshlutar hafa nýst sem ígræðslur í önnur stjórnmálaöfl og hreyfingar sem krefjast stjórnarskrár, gegnsæis, vilja spillingu feiga, og manneskjulegt samfélag og fleira smátt og gott. Þannig að þótt Borgarahreyfingin hafi ekki haft erindi sem erfiði nákvæmlega á þann hátt sem sá hópur sem að henni stóð leyfði sér á vona – hver á sinn hátt – þá lifir draumurinn góðu lífi og vonin um ennþá betra samfélag og Píratar eru partur af þeim draumi, þeirri von.

Það sem mér fannst fallegast þegar ég heyrði söguna af manninum sem ekki treysti sér til að kjósa Pírata vegna þess að hann vildi komast hjá því að verða fyrir fleiri vonbrigðum í pólitík var að þegar hann var spurður að því hvað hann ætlaði að kjósa þá sagðist hann ætla að kjósa Húmanista – og það er til marks um að mannleg náttúra lætur ekki bugast og vonin er hluti af lífsorkunni. Vonin blíð.

Þér gæti einnig líkað við
Ummæli
Hleð...